Versti vinnustaður landsins Jón Kaldal skrifar 17. mars 2008 10:00 Það kom hreint ekki á óvart þegar tilkynnt var á föstudag að tveir af æðstu stjórnendum Landspítalans myndu láta af störfum. Miðað við fréttir sem berast reglulega innan úr spítalanum hlýtur hann að vera einhver versti vinnustaður landsins. Síðast í gær sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því að 96 af 104 skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum spítalans hafi sagt upp störfum vegna óánægju með breytingar á vaktafyrirkomulagi. Í viðtali við fréttastofuna fullyrti Vigdís Árnadóttir, trúnaðarmaður þessara hjúkrunarfræðinga, að óánægja ríkti í öllum stéttum á Landspítalanum og óskaði hún eftir því að yfirvöld og ráðherrar kæmu að því að skapa starfsfrið innan spítalans. Staðfest hefur verið að brotthvarf Magnúsar Péturssonar forstjóra og Jóhannesar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga, er að frumkvæði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Guðlaugur hefur ekki greint frá ástæðunum að baki ákvörðun sinni. Ekki er þó óvarlegt að ætla að hún tengist viðvarandi ólgu innan spítalans auk fyrirhugaðra breytinga á starfsháttum hans. Ekki hefur annað verið að heyra en að ágætisandrúmsloft ríki milli almennra starfsmanna Landspítalans, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra. Straumarnir að ofan hafa á hinn bóginn þótt heldur naprir. Nýlegt dæmi um vinnubrögð sem þykja gerræðisleg, er þegar læknar voru teknir af föstum vöktum á neyðarbílnum. Sú ákvörðun var tekin einhliða, kynnt með mánaðarfyrirvara, og við hana staðið þrátt fyrir hávær mótmæli Læknafélagsins, Félags unglækna og allra sérfræðinga landsins í slysa- og bráðalækningum. Sífelldar skærur stjórnenda við samstarfsfólk sitt eru engum vinnustað hollir. Þegar starfsmennirnir eru nokkur þúsund er ljóst hverjir það eru sem þurfa að víkja. Að stýra Landspítalanum er örugglega eitt erfiðasta starf landsins. Það mun mikið mæða á þeim aðila sem heilbrigðisráðherra velur til að taka að sér það hlutverk. Ekki síst þegar haft er í huga að framundan er löngu tímabær tiltekt í heilbrigðiskerfinu. Hér á landi fara um það bil fjörutíu prósent af samneyslu þjóðarinnar til heilbrigðismála. Eins og í öðrum vestrænum löndum hækka þau útgjöld umfram þjóðarframleiðslu milli ára. En ekki er nóg með að útgjöld til heilbrigðismála vaxa hraðast á Íslandi meðal OECD-landanna heldur eru opinber útgjöld til málaflokksins, sem hlutfall af landsframleiðslu, hvergi hærri. Það skortir sem sagt alls ekki fjármagn til heilbrigðiskerfisins, eins og þingflokkur Vinstri grænna vill telja þjóðinni trú um. Vandamálið er að skattborgararnir fá ekki nógu öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá miklu fjármuni sem þeir reiða af hendi. Til að bæta úr þessu þarf nýja hugsun og nýjar leiðir í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöldum ber skylda til að nýta peningana betur en nú er gert. Nema að einhverjir trúi því að íslenska heilbrigðiskerfið sé það besta í heimi, eins og má gera kröfu um miðað við þá fjármuni sem renna til þess. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór
Það kom hreint ekki á óvart þegar tilkynnt var á föstudag að tveir af æðstu stjórnendum Landspítalans myndu láta af störfum. Miðað við fréttir sem berast reglulega innan úr spítalanum hlýtur hann að vera einhver versti vinnustaður landsins. Síðast í gær sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því að 96 af 104 skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum spítalans hafi sagt upp störfum vegna óánægju með breytingar á vaktafyrirkomulagi. Í viðtali við fréttastofuna fullyrti Vigdís Árnadóttir, trúnaðarmaður þessara hjúkrunarfræðinga, að óánægja ríkti í öllum stéttum á Landspítalanum og óskaði hún eftir því að yfirvöld og ráðherrar kæmu að því að skapa starfsfrið innan spítalans. Staðfest hefur verið að brotthvarf Magnúsar Péturssonar forstjóra og Jóhannesar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra lækninga, er að frumkvæði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Guðlaugur hefur ekki greint frá ástæðunum að baki ákvörðun sinni. Ekki er þó óvarlegt að ætla að hún tengist viðvarandi ólgu innan spítalans auk fyrirhugaðra breytinga á starfsháttum hans. Ekki hefur annað verið að heyra en að ágætisandrúmsloft ríki milli almennra starfsmanna Landspítalans, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra. Straumarnir að ofan hafa á hinn bóginn þótt heldur naprir. Nýlegt dæmi um vinnubrögð sem þykja gerræðisleg, er þegar læknar voru teknir af föstum vöktum á neyðarbílnum. Sú ákvörðun var tekin einhliða, kynnt með mánaðarfyrirvara, og við hana staðið þrátt fyrir hávær mótmæli Læknafélagsins, Félags unglækna og allra sérfræðinga landsins í slysa- og bráðalækningum. Sífelldar skærur stjórnenda við samstarfsfólk sitt eru engum vinnustað hollir. Þegar starfsmennirnir eru nokkur þúsund er ljóst hverjir það eru sem þurfa að víkja. Að stýra Landspítalanum er örugglega eitt erfiðasta starf landsins. Það mun mikið mæða á þeim aðila sem heilbrigðisráðherra velur til að taka að sér það hlutverk. Ekki síst þegar haft er í huga að framundan er löngu tímabær tiltekt í heilbrigðiskerfinu. Hér á landi fara um það bil fjörutíu prósent af samneyslu þjóðarinnar til heilbrigðismála. Eins og í öðrum vestrænum löndum hækka þau útgjöld umfram þjóðarframleiðslu milli ára. En ekki er nóg með að útgjöld til heilbrigðismála vaxa hraðast á Íslandi meðal OECD-landanna heldur eru opinber útgjöld til málaflokksins, sem hlutfall af landsframleiðslu, hvergi hærri. Það skortir sem sagt alls ekki fjármagn til heilbrigðiskerfisins, eins og þingflokkur Vinstri grænna vill telja þjóðinni trú um. Vandamálið er að skattborgararnir fá ekki nógu öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá miklu fjármuni sem þeir reiða af hendi. Til að bæta úr þessu þarf nýja hugsun og nýjar leiðir í heilbrigðiskerfinu. Stjórnvöldum ber skylda til að nýta peningana betur en nú er gert. Nema að einhverjir trúi því að íslenska heilbrigðiskerfið sé það besta í heimi, eins og má gera kröfu um miðað við þá fjármuni sem renna til þess.