Skýr skilaboð Karenar Jón Kaldal skrifar 15. maí 2008 07:00 Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Akranesi, sló tvær flugur í einu höggi þegar hún kvaddi F-lista Frjálslynda flokksins og óháðra í gær og gekk í raðir Sjálfstæðisflokksins. Í fyrsta lagi leysti hún vandræðamál sem komið var upp innan meirihlutans í bæjarstjórninni vegna andstöðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varabæjarfulltrúa og formanns félagsmálaráðs Akranesbæjar, við komu flóttafólks til bæjarins. Og í öðru lagi gerði hún stjórnmálalífi landsins þann ágæta greiða að senda út skýr skilaboð um að annaðhvort styður fólk þau sjónarmið, sem Magnús hefur haldið fram í nafni Frjálslynda flokksins, eða kemur sér með hraði á brott úr flokknum eða samstarfi við hann. Þetta var snaggaralega gert hjá Karen. Eftir vistaskipti hennar er kominn samhugur innan meirihlutans um að Akranes hafi nógu breiðan faðm til að taka á móti þessu landlausa fólki, tíu palestínskum konum og tuttugu börnum þeirra, sem hafa dvalið við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum í Írak um árabil. Þetta staðfesti nýi meirihlutinn með formlegri yfirlýsingu á bæjarráðsfundi síðdegis í gær. Þar með var þeirri hneisu afstýrt að Akraneskaupstaður sæti uppi með þann stimpil á sér að vilja ekki leggja sitt af mörkum við að hjálpa þeim sem eru minni máttar vegna þess að þeir eru ekki með íslenska kennitölu. Nú vill svo til að Magnús Þór Hafsteinsson gegnir meiri trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn en að vera varabæjarfulltrúi á Akranesi. Magnús er varaformaður Frjálslynda flokksins, sem á fjóra þingmenn á Alþingi Íslendinga, þá Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Magnússon og Kristin H. Gunnarsson. Auk þess er hann nýráðinn aðstoðarmaður flokksformannsins, Guðjóns Arnars. Magnús er sem sagt innsti koppur í búri Frjálslynda flokksins. Enda talar hann á þann veg. Það fer ekki á milli mála að hann telur sig tala fyrir flokkinn í heild þegar hann tekur til máls. „Það er einnig dapurlegt að Karen skuli með þessum hætti bregðast trausti kjósenda okkar auk þess sem hún gengur gegn vilja flokksins sem hún var kosin til að vinna fyrir," sagði Magnús í gær í samtali við netmiðilinn Vísi. Rétt er að hafa í huga að Karen sagði að eina ástæðan fyrir því að hún, sem fulltrúi óháðra á F-lista Frjálslynda flokksins og óháðra, kaus að slíta samstarfinu væri afstaða Magnúsar í garð flóttafólksins. Nú er spurt, og þingmenn flokksins beiðnir að svara, er afstaða Magnúsar til flóttafólks lýsandi fyrir stefnu Frjálslynda flokksins? Varabæjarfulltrúinn Magnús hefur skilmerkilega gert grein fyrir þeirri skoðun sinni að Akraneskaupstaður sé ekki tilbúinn til að taka við flóttafólki. Er hægt að yfirfæra það álit á landið í heild að mati þingmannanna? Telja þeir að Ísland geti og eigi að taka á móti útlendu flóttafólki eða ekki? Eins og kom fram með vistaskiptum Karenar Jónsdóttur, getur það greinilega skipt miklu máli um afstöðu fólks til Frjálslynda flokksins, að stefna hans í þessum efnum sé uppi á borðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis? Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Réttur kvenna til lífs Ólöf Embla Eyjólfsdóttir Skoðun Er hægt að kaupa aukakíóin í burtu? Elísabet Reynisdóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór
Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Akranesi, sló tvær flugur í einu höggi þegar hún kvaddi F-lista Frjálslynda flokksins og óháðra í gær og gekk í raðir Sjálfstæðisflokksins. Í fyrsta lagi leysti hún vandræðamál sem komið var upp innan meirihlutans í bæjarstjórninni vegna andstöðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varabæjarfulltrúa og formanns félagsmálaráðs Akranesbæjar, við komu flóttafólks til bæjarins. Og í öðru lagi gerði hún stjórnmálalífi landsins þann ágæta greiða að senda út skýr skilaboð um að annaðhvort styður fólk þau sjónarmið, sem Magnús hefur haldið fram í nafni Frjálslynda flokksins, eða kemur sér með hraði á brott úr flokknum eða samstarfi við hann. Þetta var snaggaralega gert hjá Karen. Eftir vistaskipti hennar er kominn samhugur innan meirihlutans um að Akranes hafi nógu breiðan faðm til að taka á móti þessu landlausa fólki, tíu palestínskum konum og tuttugu börnum þeirra, sem hafa dvalið við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum í Írak um árabil. Þetta staðfesti nýi meirihlutinn með formlegri yfirlýsingu á bæjarráðsfundi síðdegis í gær. Þar með var þeirri hneisu afstýrt að Akraneskaupstaður sæti uppi með þann stimpil á sér að vilja ekki leggja sitt af mörkum við að hjálpa þeim sem eru minni máttar vegna þess að þeir eru ekki með íslenska kennitölu. Nú vill svo til að Magnús Þór Hafsteinsson gegnir meiri trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn en að vera varabæjarfulltrúi á Akranesi. Magnús er varaformaður Frjálslynda flokksins, sem á fjóra þingmenn á Alþingi Íslendinga, þá Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Magnússon og Kristin H. Gunnarsson. Auk þess er hann nýráðinn aðstoðarmaður flokksformannsins, Guðjóns Arnars. Magnús er sem sagt innsti koppur í búri Frjálslynda flokksins. Enda talar hann á þann veg. Það fer ekki á milli mála að hann telur sig tala fyrir flokkinn í heild þegar hann tekur til máls. „Það er einnig dapurlegt að Karen skuli með þessum hætti bregðast trausti kjósenda okkar auk þess sem hún gengur gegn vilja flokksins sem hún var kosin til að vinna fyrir," sagði Magnús í gær í samtali við netmiðilinn Vísi. Rétt er að hafa í huga að Karen sagði að eina ástæðan fyrir því að hún, sem fulltrúi óháðra á F-lista Frjálslynda flokksins og óháðra, kaus að slíta samstarfinu væri afstaða Magnúsar í garð flóttafólksins. Nú er spurt, og þingmenn flokksins beiðnir að svara, er afstaða Magnúsar til flóttafólks lýsandi fyrir stefnu Frjálslynda flokksins? Varabæjarfulltrúinn Magnús hefur skilmerkilega gert grein fyrir þeirri skoðun sinni að Akraneskaupstaður sé ekki tilbúinn til að taka við flóttafólki. Er hægt að yfirfæra það álit á landið í heild að mati þingmannanna? Telja þeir að Ísland geti og eigi að taka á móti útlendu flóttafólki eða ekki? Eins og kom fram með vistaskiptum Karenar Jónsdóttur, getur það greinilega skipt miklu máli um afstöðu fólks til Frjálslynda flokksins, að stefna hans í þessum efnum sé uppi á borðinu.