Hlustar enginn? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 29. október 2011 06:00 Enn bætast við hrollvekjandi upplýsingar um áhrif fyrirhugaðra breytinga ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnarkerfinu á afkomu sjávarútvegsins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte vann úttekt, sem sagt var frá á aðalfundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna í fyrradag. Þar kemur meðal annars fram að nái kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra fram að ganga þýði það gífurlegan viðsnúning í sjóðstreymi sjávarútvegsfyrirtækja, eða um 320 milljarða. Neikvætt sjóðstreymi dregur úr getu fyrirtækja til að borga skuldir, greiða reikninga og standa undir nauðsynlegum fjárfestingum. Jafnframt metur Deloitte það svo að samkvæmt lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilareglum þurfi að afskrifa strax allar aflaheimildir, sem fyrirtækin hafi keypt. Það myndi lækka eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 212 milljarða króna. Eftir hrun er sjávarútvegurinn eina stóra atvinnugreinin þar sem eigið fé hefur farið hækkandi. Ríkisstjórninni er augljóslega mikið í mun að laga það, þannig að allir lepji dauðann úr sömu skel. Þessi skerðing á eigin fé sjávarútvegsfyrirtækjanna þýddi ekki bara að þau færu mörg á hvínandi hausinn, heldur yrðu áhrifin á fjármálafyrirtæki mjög neikvæð. Landsbankinn, sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins, yrði verst úti og mat Þorvarðar Gunnarssonar, forstjóra Deloitte, hér í blaðinu í gær er að skattgreiðendur þurfi að leggja bankanum til fé til að standast áfallið, gangi þessi áform eftir. Álit Deloitte er á sama veg og langflestra sérfræðinga sem gefið hafa álit sitt á efnahagslegum áhrifum áforma ríkisstjórnarinnar. Hagfræðingahópurinn sem Jón Bjarnason skipaði sjálfur til að fara yfir málið komst að þeirri niðurstöðu að tillögurnar væru efnahagslegt glapræði. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagði á aðalfundinum í fyrradag að nú mætti ætla að stjórnvöld hefðu lært sína lexíu, sæju að sér og kölluðu aðila málsins að borðinu til að falla frá þessum geggjuðu breytingum. Því væri hins vegar ekki að heilsa; þingmenn svöruðu rökstuddum athugasemdum með útúrsnúningum. Einn af þeim útúrsnúningum er þegar þingmenn svara því til að það sé nú fleira en hagkvæmnin sem skipti máli í sjávarútveginum, til dæmis byggðasjónarmið og réttlætissjónarmið um arð þjóðarinnar af auðlindinni. En hagkvæmnin kemur auðvitað fyrst. Það er hvorki sjávarbyggðunum í hag né réttlátt fyrir nokkurn mann ef fyrirtæki sem eru vel rekin í dag fara á hausinn vegna heimskulegra ákvarðana stjórnvalda. Það er engu líkara en að í stjórnarmeirihlutanum sé enginn að hlusta á þær grafalvarlegu viðvaranir sem heyrast úr öllum áttum. Það er hægt að fullnægja grundvallarsjónarmiðinu um að þjóðin njóti afraksturs fiskimiðanna með því að hækka veiðileyfagjaldið að því marki að sjávarútvegurinn standi undir því. Það á ríkisstjórnin að halda sig við en hún á að hætta við að gereyðileggja fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur reynzt vel og er mörgum öðrum ríkjum fyrirmynd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór
Enn bætast við hrollvekjandi upplýsingar um áhrif fyrirhugaðra breytinga ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnarkerfinu á afkomu sjávarútvegsins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte vann úttekt, sem sagt var frá á aðalfundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna í fyrradag. Þar kemur meðal annars fram að nái kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra fram að ganga þýði það gífurlegan viðsnúning í sjóðstreymi sjávarútvegsfyrirtækja, eða um 320 milljarða. Neikvætt sjóðstreymi dregur úr getu fyrirtækja til að borga skuldir, greiða reikninga og standa undir nauðsynlegum fjárfestingum. Jafnframt metur Deloitte það svo að samkvæmt lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilareglum þurfi að afskrifa strax allar aflaheimildir, sem fyrirtækin hafi keypt. Það myndi lækka eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 212 milljarða króna. Eftir hrun er sjávarútvegurinn eina stóra atvinnugreinin þar sem eigið fé hefur farið hækkandi. Ríkisstjórninni er augljóslega mikið í mun að laga það, þannig að allir lepji dauðann úr sömu skel. Þessi skerðing á eigin fé sjávarútvegsfyrirtækjanna þýddi ekki bara að þau færu mörg á hvínandi hausinn, heldur yrðu áhrifin á fjármálafyrirtæki mjög neikvæð. Landsbankinn, sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins, yrði verst úti og mat Þorvarðar Gunnarssonar, forstjóra Deloitte, hér í blaðinu í gær er að skattgreiðendur þurfi að leggja bankanum til fé til að standast áfallið, gangi þessi áform eftir. Álit Deloitte er á sama veg og langflestra sérfræðinga sem gefið hafa álit sitt á efnahagslegum áhrifum áforma ríkisstjórnarinnar. Hagfræðingahópurinn sem Jón Bjarnason skipaði sjálfur til að fara yfir málið komst að þeirri niðurstöðu að tillögurnar væru efnahagslegt glapræði. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagði á aðalfundinum í fyrradag að nú mætti ætla að stjórnvöld hefðu lært sína lexíu, sæju að sér og kölluðu aðila málsins að borðinu til að falla frá þessum geggjuðu breytingum. Því væri hins vegar ekki að heilsa; þingmenn svöruðu rökstuddum athugasemdum með útúrsnúningum. Einn af þeim útúrsnúningum er þegar þingmenn svara því til að það sé nú fleira en hagkvæmnin sem skipti máli í sjávarútveginum, til dæmis byggðasjónarmið og réttlætissjónarmið um arð þjóðarinnar af auðlindinni. En hagkvæmnin kemur auðvitað fyrst. Það er hvorki sjávarbyggðunum í hag né réttlátt fyrir nokkurn mann ef fyrirtæki sem eru vel rekin í dag fara á hausinn vegna heimskulegra ákvarðana stjórnvalda. Það er engu líkara en að í stjórnarmeirihlutanum sé enginn að hlusta á þær grafalvarlegu viðvaranir sem heyrast úr öllum áttum. Það er hægt að fullnægja grundvallarsjónarmiðinu um að þjóðin njóti afraksturs fiskimiðanna með því að hækka veiðileyfagjaldið að því marki að sjávarútvegurinn standi undir því. Það á ríkisstjórnin að halda sig við en hún á að hætta við að gereyðileggja fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur reynzt vel og er mörgum öðrum ríkjum fyrirmynd.