Aukið á skömm Alþingis Ólafur Þ. Stephensen skrifar 12. júní 2013 08:52 Enga sérstaka spekinga þurfti á sínum tíma til að sjá að réttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, voru pólitísk. Þannig var til þeirra stofnað, þegar þingmenn kusu eftir flokkslínum um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum. Atkvæði nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, sem vildu ákæra fyrrverandi forystumann annars flokks en hlífa samflokksmönnum sínum, réðu því að Geir var einn ákærður. Það er heldur ekki frétt að mannréttinda Geirs hafi ekki verið gætt sem skyldi við málsmeðferðina; á það var margoft bent að lögin um Landsdóm væru gömul og úrelt og tryggðu ekki sama rétt til réttlátrar málsmeðferðar og nýrri lagaákvæði um meðferð sakamála. Þeim hefur raunar fækkað stórum, jafnvel í hópi þeirra sem upphaflega studdu ákærur fyrir Landsdómi, sem telja að þar hafi verið valin rétt leið til að gera upp við efnahagshrunið. Þverpólitísk samstaða er um að endurskoða lögin um Landsdóm. Engu að síður hlýtur það að vekja athygli, þegar í drögum að skýrslu laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins um pólitísk réttarhöld í aðildarríkjunum er í nánast öllum atriðum tekið undir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram hér innanlands á Landsdómsmálið. Allir nefndarmennirnir áttatíu og fjórir skrifuðu upp á drögin, utan Þuríður Backman, þingmaður Vinstri grænna, sem skilaði séráliti og lýsti sig andvíga niðurstöðunum hvað réttarhöldin yfir Geir H. Haarde varðaði. Í drögunum segir að í lýðræðis- og réttarríkjum verði stjórnmálamenn að vera fríir af refsiábyrgð vegna pólitískra ákvarðana sinna. Menn eigi að bera pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum og dómararnir í því máli séu kjósendurnir. Hins vegar beri að saksækja stjórnmálamenn fyrir raunveruleg afbrot sem þeir fremja, hvort heldur sem einstaklingar eða í krafti embættis síns. Þeir beri refsiábyrgð á afbrotum sínum, rétt eins og venjulegir borgarar. Pieter Omtzigt, hollenzki þingmaðurinn sem er höfundur skýrslu laga- og mannréttindanefndarinnar um málið, segir að svo virðist sem meirihluti Alþingis hafi viljað „glæpavæða“ með einhverjum hætti þá frjálslyndu efnahagsstefnu sem hafi stuðlað að uppgangi og hruni íslenzku bankanna. Saksóknari Alþingis hafi farið offari er hann reyndi að klína á Geir því „broti“ að fylgja venju sem viðhöfð hafði verið áratugum saman á Íslandi við framlagningu mála á ríkisstjórnarfundum – en það var hið afkáralega aukaatriði, sem Geir var á endanum sakfelldur fyrir í Landsdómi. Omtzigt segir að Landsdómsmálið brjóti gegn þeirri grundvallarreglu að aðskilja eigi pólitíska ábyrgð og refsiábyrgð. Omtzigt fjallar í sömu skýrslu um saksókn nýrra stjórnvalda á hendur fyrrverandi ráðamönnum í Úkraínu vegna pólitískra ákvarðana. Þótt hann taki fram að mál þeirra og Geirs Haarde séu ekki sambærileg, er einkar vandræðalegt fyrir þau íslenzku stjórnvöld sem tóku ákvörðun um ákæru á hendur Geir að vera í þeim vonda félagsskap. Umfjöllun laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins eykur enn á skömm Alþingis í Landsdómsmálinu. Og var hún þó ærin fyrir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Landsdómur Ólafur Stephensen Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun
Enga sérstaka spekinga þurfti á sínum tíma til að sjá að réttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, voru pólitísk. Þannig var til þeirra stofnað, þegar þingmenn kusu eftir flokkslínum um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum. Atkvæði nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, sem vildu ákæra fyrrverandi forystumann annars flokks en hlífa samflokksmönnum sínum, réðu því að Geir var einn ákærður. Það er heldur ekki frétt að mannréttinda Geirs hafi ekki verið gætt sem skyldi við málsmeðferðina; á það var margoft bent að lögin um Landsdóm væru gömul og úrelt og tryggðu ekki sama rétt til réttlátrar málsmeðferðar og nýrri lagaákvæði um meðferð sakamála. Þeim hefur raunar fækkað stórum, jafnvel í hópi þeirra sem upphaflega studdu ákærur fyrir Landsdómi, sem telja að þar hafi verið valin rétt leið til að gera upp við efnahagshrunið. Þverpólitísk samstaða er um að endurskoða lögin um Landsdóm. Engu að síður hlýtur það að vekja athygli, þegar í drögum að skýrslu laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins um pólitísk réttarhöld í aðildarríkjunum er í nánast öllum atriðum tekið undir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram hér innanlands á Landsdómsmálið. Allir nefndarmennirnir áttatíu og fjórir skrifuðu upp á drögin, utan Þuríður Backman, þingmaður Vinstri grænna, sem skilaði séráliti og lýsti sig andvíga niðurstöðunum hvað réttarhöldin yfir Geir H. Haarde varðaði. Í drögunum segir að í lýðræðis- og réttarríkjum verði stjórnmálamenn að vera fríir af refsiábyrgð vegna pólitískra ákvarðana sinna. Menn eigi að bera pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum og dómararnir í því máli séu kjósendurnir. Hins vegar beri að saksækja stjórnmálamenn fyrir raunveruleg afbrot sem þeir fremja, hvort heldur sem einstaklingar eða í krafti embættis síns. Þeir beri refsiábyrgð á afbrotum sínum, rétt eins og venjulegir borgarar. Pieter Omtzigt, hollenzki þingmaðurinn sem er höfundur skýrslu laga- og mannréttindanefndarinnar um málið, segir að svo virðist sem meirihluti Alþingis hafi viljað „glæpavæða“ með einhverjum hætti þá frjálslyndu efnahagsstefnu sem hafi stuðlað að uppgangi og hruni íslenzku bankanna. Saksóknari Alþingis hafi farið offari er hann reyndi að klína á Geir því „broti“ að fylgja venju sem viðhöfð hafði verið áratugum saman á Íslandi við framlagningu mála á ríkisstjórnarfundum – en það var hið afkáralega aukaatriði, sem Geir var á endanum sakfelldur fyrir í Landsdómi. Omtzigt segir að Landsdómsmálið brjóti gegn þeirri grundvallarreglu að aðskilja eigi pólitíska ábyrgð og refsiábyrgð. Omtzigt fjallar í sömu skýrslu um saksókn nýrra stjórnvalda á hendur fyrrverandi ráðamönnum í Úkraínu vegna pólitískra ákvarðana. Þótt hann taki fram að mál þeirra og Geirs Haarde séu ekki sambærileg, er einkar vandræðalegt fyrir þau íslenzku stjórnvöld sem tóku ákvörðun um ákæru á hendur Geir að vera í þeim vonda félagsskap. Umfjöllun laga- og mannréttindanefndar þings Evrópuráðsins eykur enn á skömm Alþingis í Landsdómsmálinu. Og var hún þó ærin fyrir.