Springfield Bergur Ebbi skrifar 13. maí 2016 07:00 Ég man eftir ákveðnu atviki í mótmælunum 2009. Ég var staddur í tiltölulega fámennum en háværum mótmælendahópi. Þetta var á Austurvelli seinni part dags, það voru líklega ekki nema 200-300 manns þarna. Hópurinn beindi hrópum sínum að Alþingishúsinu. „Vanhæf ríkisstjórn!“ Skyndilega opnuðust dyrnar að Dómkirkjunni. Eldri maður í jakkafötum steig út. Þó hann væri tugum metra frá mér þá skynjaði ég skilning og samkennd í fasi hans. Hann talaði ekki hátt en fékk samt háværan mótmælendahópinn til að hlusta: „Gott fólk. Þið beinið hrópum ykkar að röngu húsi. Þingið er ekki að störfum í dag og hér í Dómkirkjunni fer fram jarðarför. Mér þætti vænt um ef þið mynduð fara eitthvert annað.“Skilvirkur múgur Hann hafði lög að mæla. Til hvers að hrópa vanhæf ríkisstjórn að húsi þar sem enga ríkisstjórn var að finna? Það heyrðist kliður. Múgurinn þurfti að melta þessar nýju upplýsingar í mínútu eða svo. Hvert átti þá að fara? Skyndilega reis einhver upp úr þvögunni. Í minningunni leit hann út eins og Moe, barþjónninn í Simpsons. „Þetta er rétt. Ekki viljum við trufla jarðarför. Förum að stjórnarráðinu!“ sagði hann og gaf snögga en hvassa bendingu. Þá gerðist eitthvað rosalegt. Múgurinn, í heild sinni, hlýddi og færði sig. Ég var þarna í miðri þvögunni og fann að ég hafði enga sjálfstæða hugsun. Ég sveif bara áfram í þyrpingunni eins og mý í stórum sveip. Þetta var unaðsleg tilfinning. Þetta er smá spotti að fara fyrir 300 manna hóp, upp Austurstrætið yfir Lækjargötuna og að túninu við Stjórnaráðshúsið. Ég er enn að hugsa hvernig þetta hefur litið út séð úr lofti? Ég er reyndar með tilgátu. Ég spilaði mikið tölvuleik sem heitir Sim City 2000 þegar ég var yngri. Þetta var vinsælasti hermileikur sinnar kynslóðar. Markmiðið var að stjórna og byggja upp heila borg. Ef maður tók rangar ákvarðanir gat það leitt til þess að fólkið í borginni manns fór að mótmæla á götum úti. Mótmælendurnir voru eins og lítil einangruð þyrping sem liðaðist eftir götunum í fullkomnu kassalega mengi. Nákvæmlega þannig held ég að þetta hafi litið út. Mér leið eins og ég væri lítið meira en forritunarskipun í tölvuleik þar sem ég leið áfram í skýinu. Hversu vel það fékk mér til að líða er svo efni í heimspekilegri athuganir um hver sé grundvöllur hamingjunnar.„Hann er að flýja“ Þegar að Stjórnarráðshúsinu var komið hlupu nokkrir mótmælendur úr hópnum og börðu á dyrnar sem snúa á móti Lækjargötu. Enginn kom til dyra. Þá heyrðist kallað ofan úr brekkunni: „Hann er að flýja út um bakdyrnar!“ og var átt við Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Skyndilega sá hópurinn svartan ráðherrabíl stefna út af bílastæðinu við aftanvert húsið. Flugnagerið dreifði úr sér. Við hlupum upp brekkuna. Það var smá kaos. Fólk hafði komið sér fyrir við útkeyrslu bílastæðisins þar sem það meinaði ráðherranum útgöngu. Þetta reyndist sögufrægt því það var þarna sem náðust fréttamyndir af mótmælendum, þar á meðal Hallgrími Helgasyni rithöfundi, að berja ráðherrabílinn að utan. Ekki ætla ég að dæma. Sjálfur var ég orðinn svo æstur þarna að ef ég hefði verið kominn nær hefði ég mögulega farið úr að ofan og mjakað sjálfum mér eftir bílnum og öskrað Clash-texta í gegnum framrúðuna. Ég verð því að segja að ég hef ávallt haft fullan skilning á stundaræsingi rithöfundarins. Stöldrum aðeins við. Ég rifja upp þessa sögu því á þessari stundu fann ég hversu stutt er í kvikuna í þessu samfélagi okkar, og hvað það er – þrátt fyrir allt – kómískt.Gamaldags skrípó Æi, er ekki bara fjandi gott að búa í samfélagi þar sem allt getur gerst? Þar sem augnablik breyta þjóðfélagsstefnum, þar sem múgurinn er kvikur sem mófugl, þar sem grínisti varð borgarstjóri og dýralæknir forsætisráðherra og alltaf eitthvað nýtt í hverri viku? Hvar nema í teiknimynd þarf ráðherra í fullkominni nauðvörn að útskýra fyrir fólki að konan hans sé ekki á leiðinni út í geim? Aðeins sleggja úr tré, risastór kúla og tungan út hefði túlkað fall æðsta ráðamanns þjóðarinnar á kómískari hátt. Þetta var eins og skrípó af gamla skólanum, það vantaði bara bojojojojojong hljóð og forsætisráðherrann dúandi upp og niður í formi harmonikku og „that’s all folks“ skrifað yfir til að fullkomna fléttuna. Og talandi um harmonikkur. Forsetinn að hætta, hætta við að hætta og hætta við að hætta við að hætta. Verður uppklappslag á þessu nikkuballi?Yndislegir tímar Svo eru það allar hinar týpurnar. Guðni Th. í hlutverki skelegga vitringsins sem var kvaddur til að útskýra fléttuna en lendir svo í dauðafæri á að erfa konungsdæmið (það hlýtur að vera plottið í einhverju Grimms-ævintýrinu), Andri Snær með sína Palli var einn í heiminum skandinavísku sætabrauðs-ásjónu og svo að lokum Davíð Oddsson sem ég er ekki enn búinn að gera upp við mig hvort hafi minnt meira á Mr. Burns eða Hans Moleman þegar hann parkeraði Land Cruisernum sínum í Skaftahlíðinni og steig inn á sjónarsviðið eftir sjö ára hlé. Og við? Við erum múgurinn góði sem pendúlumst til og frá í skoðanakönnunum og svífum um eins og mýstrókur. Og það er yndislegt – ég segi þetta af einlægni og endurtek - yndislegt að fá að vera hluti af þessu; hluti af samfélagi þar sem allir þekkja alla, allt er hægt og allt getur gerst. Vorið ilmar, himininn er teiknimyndablár, sykurpúðalegir skýjabólstrar svífa yfir. Það er nýr þáttur í hverri viku og við erum að lifa hann.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór
Ég man eftir ákveðnu atviki í mótmælunum 2009. Ég var staddur í tiltölulega fámennum en háværum mótmælendahópi. Þetta var á Austurvelli seinni part dags, það voru líklega ekki nema 200-300 manns þarna. Hópurinn beindi hrópum sínum að Alþingishúsinu. „Vanhæf ríkisstjórn!“ Skyndilega opnuðust dyrnar að Dómkirkjunni. Eldri maður í jakkafötum steig út. Þó hann væri tugum metra frá mér þá skynjaði ég skilning og samkennd í fasi hans. Hann talaði ekki hátt en fékk samt háværan mótmælendahópinn til að hlusta: „Gott fólk. Þið beinið hrópum ykkar að röngu húsi. Þingið er ekki að störfum í dag og hér í Dómkirkjunni fer fram jarðarför. Mér þætti vænt um ef þið mynduð fara eitthvert annað.“Skilvirkur múgur Hann hafði lög að mæla. Til hvers að hrópa vanhæf ríkisstjórn að húsi þar sem enga ríkisstjórn var að finna? Það heyrðist kliður. Múgurinn þurfti að melta þessar nýju upplýsingar í mínútu eða svo. Hvert átti þá að fara? Skyndilega reis einhver upp úr þvögunni. Í minningunni leit hann út eins og Moe, barþjónninn í Simpsons. „Þetta er rétt. Ekki viljum við trufla jarðarför. Förum að stjórnarráðinu!“ sagði hann og gaf snögga en hvassa bendingu. Þá gerðist eitthvað rosalegt. Múgurinn, í heild sinni, hlýddi og færði sig. Ég var þarna í miðri þvögunni og fann að ég hafði enga sjálfstæða hugsun. Ég sveif bara áfram í þyrpingunni eins og mý í stórum sveip. Þetta var unaðsleg tilfinning. Þetta er smá spotti að fara fyrir 300 manna hóp, upp Austurstrætið yfir Lækjargötuna og að túninu við Stjórnaráðshúsið. Ég er enn að hugsa hvernig þetta hefur litið út séð úr lofti? Ég er reyndar með tilgátu. Ég spilaði mikið tölvuleik sem heitir Sim City 2000 þegar ég var yngri. Þetta var vinsælasti hermileikur sinnar kynslóðar. Markmiðið var að stjórna og byggja upp heila borg. Ef maður tók rangar ákvarðanir gat það leitt til þess að fólkið í borginni manns fór að mótmæla á götum úti. Mótmælendurnir voru eins og lítil einangruð þyrping sem liðaðist eftir götunum í fullkomnu kassalega mengi. Nákvæmlega þannig held ég að þetta hafi litið út. Mér leið eins og ég væri lítið meira en forritunarskipun í tölvuleik þar sem ég leið áfram í skýinu. Hversu vel það fékk mér til að líða er svo efni í heimspekilegri athuganir um hver sé grundvöllur hamingjunnar.„Hann er að flýja“ Þegar að Stjórnarráðshúsinu var komið hlupu nokkrir mótmælendur úr hópnum og börðu á dyrnar sem snúa á móti Lækjargötu. Enginn kom til dyra. Þá heyrðist kallað ofan úr brekkunni: „Hann er að flýja út um bakdyrnar!“ og var átt við Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Skyndilega sá hópurinn svartan ráðherrabíl stefna út af bílastæðinu við aftanvert húsið. Flugnagerið dreifði úr sér. Við hlupum upp brekkuna. Það var smá kaos. Fólk hafði komið sér fyrir við útkeyrslu bílastæðisins þar sem það meinaði ráðherranum útgöngu. Þetta reyndist sögufrægt því það var þarna sem náðust fréttamyndir af mótmælendum, þar á meðal Hallgrími Helgasyni rithöfundi, að berja ráðherrabílinn að utan. Ekki ætla ég að dæma. Sjálfur var ég orðinn svo æstur þarna að ef ég hefði verið kominn nær hefði ég mögulega farið úr að ofan og mjakað sjálfum mér eftir bílnum og öskrað Clash-texta í gegnum framrúðuna. Ég verð því að segja að ég hef ávallt haft fullan skilning á stundaræsingi rithöfundarins. Stöldrum aðeins við. Ég rifja upp þessa sögu því á þessari stundu fann ég hversu stutt er í kvikuna í þessu samfélagi okkar, og hvað það er – þrátt fyrir allt – kómískt.Gamaldags skrípó Æi, er ekki bara fjandi gott að búa í samfélagi þar sem allt getur gerst? Þar sem augnablik breyta þjóðfélagsstefnum, þar sem múgurinn er kvikur sem mófugl, þar sem grínisti varð borgarstjóri og dýralæknir forsætisráðherra og alltaf eitthvað nýtt í hverri viku? Hvar nema í teiknimynd þarf ráðherra í fullkominni nauðvörn að útskýra fyrir fólki að konan hans sé ekki á leiðinni út í geim? Aðeins sleggja úr tré, risastór kúla og tungan út hefði túlkað fall æðsta ráðamanns þjóðarinnar á kómískari hátt. Þetta var eins og skrípó af gamla skólanum, það vantaði bara bojojojojojong hljóð og forsætisráðherrann dúandi upp og niður í formi harmonikku og „that’s all folks“ skrifað yfir til að fullkomna fléttuna. Og talandi um harmonikkur. Forsetinn að hætta, hætta við að hætta og hætta við að hætta við að hætta. Verður uppklappslag á þessu nikkuballi?Yndislegir tímar Svo eru það allar hinar týpurnar. Guðni Th. í hlutverki skelegga vitringsins sem var kvaddur til að útskýra fléttuna en lendir svo í dauðafæri á að erfa konungsdæmið (það hlýtur að vera plottið í einhverju Grimms-ævintýrinu), Andri Snær með sína Palli var einn í heiminum skandinavísku sætabrauðs-ásjónu og svo að lokum Davíð Oddsson sem ég er ekki enn búinn að gera upp við mig hvort hafi minnt meira á Mr. Burns eða Hans Moleman þegar hann parkeraði Land Cruisernum sínum í Skaftahlíðinni og steig inn á sjónarsviðið eftir sjö ára hlé. Og við? Við erum múgurinn góði sem pendúlumst til og frá í skoðanakönnunum og svífum um eins og mýstrókur. Og það er yndislegt – ég segi þetta af einlægni og endurtek - yndislegt að fá að vera hluti af þessu; hluti af samfélagi þar sem allir þekkja alla, allt er hægt og allt getur gerst. Vorið ilmar, himininn er teiknimyndablár, sykurpúðalegir skýjabólstrar svífa yfir. Það er nýr þáttur í hverri viku og við erum að lifa hann.Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.