TripleG trylltur í háloftunum

Snorri Rafn Hallsson skrifar
triple

Leikurinn fór fram í háloftakortinu Vertigo og hafði LAVA betur í hnífalotunni þegar Goa7er felldi Zerq. Það féll því í hlut SAGA að sækja í fyrri hálfleik.

LAVA fór vel af stað í vörninni og er óhætt að segja að Stalz hafi verið risastór í fyrri hálfleik. Vel æfðar handsprengjur hjá honum töfðu SAGA í sókninni og gat LAVA þá mætt þeim af krafti. Þriðja stig LAVA kom í kjölfarið á fjórfaldri fellu frá Stalz en næstu fjórar lotur fóru einnig LAVA í vil.

SAGA tókst loks að sprengja sprengjuna í áttundu lotu á bakinu á einstaklingsframtaki Skoon og ADHD. Náðu þeir að tengja saman nokkrar lotur þar sem ADHD sótti góðar opnanir og Zerq raðaði inn fellunum, en LAVA hélt þó ágætu forskoti inn í síðari hálfleik.

Staða í hálfleik: LAVA 9 – 6 SAGA

WZRD setti tóninn fyrir SAGA í síðari hálfleik með þrefaldri fellu í skammbyssulotunni og kom sér í 10–9 með fjórfaldri fellu frá DOM. LAVA var ekki með svörin þar til TripleG tók aldeilis við sér. Margfaldar fellur, skjót viðbrögð og öflugar lokanir voru einmitt það sem LAVA þurfti. Að lokum var það svo Goa7er sem innsiglaði sigurinn með tvöfaldri fellu á síðustu stundu,

Lokastaða: LAVA 16 – 12 SAGA

Með sigrinum styrkti LAVA stöðu sína á töflunni og er nú við hlið NÚ, Ármanns og Þórs, en þau lið eiga reyndar leik til góða.

Næstu leikir liðanna:

  • SAGA – Fylkir, laugardaginn 15/10, klukkan 20:00.
  • Dusty – LAVA, laugardaginn 15/10, klukkan 21:00.

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir