Ravle með flesta fellur í sigri NÚ á TEN5ION

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ravle

NÚ hefur átt góðu gengi að fagna og komst í annað sæti Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO eftir góðan sigur á Viðstöðu í síðustu viku. TEN5ION hefur hins vegar verið í miklu basli og ekki tekist að vinna leik á tímabilinu þó oft hafi ekki munað miklu.

Liðin mættust í Ancient kortinu og tryggði Bjarni NÚ hnífalotuna og réttinn til að byrja í vörn í fyrri hálfleik. Framan af komst TEN5ION varla að í leiknum. Þrátt fyrir góðar opnanir hjá TEN5ION náði NÚ alltaf að þétta vörnina og spila sig inn í loturnar. RavlE og Bjarni voru í feykilegu stuði og féllu fyrstu átta loturnar með liði þeirra, NÚ.

TEN5ION komst loks á blað í 9. lotu eftir að hafa tekið leikhlé. Eftir það gekk þeim betur að spila hver af öðrum og svara fellum frá NÚ. Moshii átti góðar fellur og þegar upp var staðið náði TEN5ION 5 lotum í fyrri hálfleik.

Staða í hálfleik: TEN5ION 5 – 10 NÚ

NÚ var í mjög góðri stöðu þegar liðin skiptu um hlutverk. CLVR tryggði liðinu fyrstu lotu síðari hálfleiks með því að fella Sveittan þegar hann reyndi að aftengja sprengjuna og næsta lota fór einnig til NÚ sem felldi alla leikmenn TEN5ION án þess að missa mann.

Útlitið var því svart fyrir TEN5ION sem gafst samt ekki upp. Hugo, Sveittur og Moshii voru agaðir, beittu búnaði vel til að tefja NÚ og fella þá hvern af öðrum. NÚ lenti því á vegg og leikmenn liðsins reyndu hvað þeir gátu en allt kom fyrr ekki. TEN5ION vann þannig fjórar lotur í röð og komnir inn í leikinn á ný.

Þegar á reyndi tókst NÚ að halda aftur af endurtökutilraunum TEN5ION og klára leikinn í síðustu þremur lotunum.

Lokastaða: TEN5ION 10 – 16 NÚ

Með sigrinum tyllti NÚ sér í toppsæti deildarinnar nú þegar tímabilið er hálfnað.

Hlé verður gert á Ljósleiðaradeildinni á meðan umspil fyrir Blast mótið fer fram.

Næstu leikir liðanna:

  • TEN5ION–SAGA, þriðjudaginn 29. nóv., kl: 19:30
  • Fylkir–NÚ, fimmtudaginn 1. des., kl: 19:30

Sýnt verður frá leikjunum í beinni á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir