Sport

Sonja skaraði fram úr: „Mestu máli skiptir að hafa trú á sjálfum sér“

Aron Guðmundsson skrifar
Þetta er í fimmta sinn og annað árið í röð sem Sonja er valin íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra
Þetta er í fimmta sinn og annað árið í röð sem Sonja er valin íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra Vísir/Vilhelm

Sund­fólkið Sonja Sigurðar­dóttir og Róbert Ísak Jóns­son voru í dag út­nefnd íþrótta­kona og íþrótta­maður ársins hjá Íþrótta­sam­bandi fatlaðra. Sonja er ein af okkar reynslu­mestu sund­konum og hún er hvergi nærri hætt og segir mestu máli skipta að hafa trú á sjálfri sér.

Verð­launin voru veitt við hátíð­lega at­höfn á Grand Hótel í Reykja­vík í dag og er þetta er í fimmta sinn sem Sonja hlýtur verð­launin.

Er þetta alltaf jafn sér­stakt?

„Já alltaf jafn sér­stakt,“ segir Sonja í sam­tali við Vísi. „Mjög stórt. Góð til­finning sem þessu fylgir sem hvetur mann til að gera betur í fram­haldinu.“

Sonja hefur átt skínandi gengi að fagna á árinu sem nú er að líða. Sett ellefu Ís­lands­met og staðið sig vel á Norður­landa- og Evrópu­meistaramótum. Þá synti hún í tveimur greinum á Ólympíu­leikum fatlaðra í París í sumar og endaði í sjöunda sæti í 50 metra bak­sundi á nýju Ís­lands­meti. Þetta voru þriðju Ólympíu­leikar Sonju.

Hvað býr að baki þessum góða árangri?

„Að hafa góða trú á sjálfum sér. Hvílast vel og nærast. Allt spilar þetta saman. Líka sál­fræði­með­ferð, sjúkraþjálfun og nudd. Allt hjálpar þetta.“

Árið 2024 hjá Sonju: 

Sonja Sigurðardóttir setti alls 11 Íslandsmet í sundi á árinu 2024 í flokki S3, þar af voru sex sett í 25m laug og fimm í 50m laug. Á norðurlandamóti setti Sonja Íslandsmet í 25m laug í 50m baksundi með tímann 1:10,22, 50m skriðsundi með tímann 1:10,18 og 100m baksundi með tímann 2:31,86. Á EM setti hún Íslansmet í 100m skriðsundi þar sem hún kom í mark á tímanum 2:22,15 og í 50m skriðsundi þar sem hún kom í mark á tímanum 1:07,43. Á Paralympics í París setti Sonja einnig Íslandsmet þar sem hún kom í mark í úrslitum í 50m baksundi á tímanum 1:07,46.

Sonja tók þátt á tveimur stórmótum árið 2024, á Evrópumeistaramóti IPC (EM) og á Paralympics. Á EM keppti Sonja í 100m skriðsundi og 50m baksundi þar sem hún endaði í 5 sæti í báðum greinum á nýjum Íslandsmetum. Á Paralympics í París keppti Sonja í tveimur greinum, 50m baksundi og 100m baksundi. Sonja komst í úrslit í 50 m baksundi þar sem hún endaði í 7. sæti á nýju Íslansmeti.

Þetta er í fimmta sinn sem Sonja hlýtur nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hún var fyrst kjörin árið 2008, aftur árið 2009, 2016 og nú seinast árið 2023. Þetta verður því annað árið í röð sem hún hlýtur nafnbótina og alls fimm sinnum.

Að­spurð hver há­punkturinn á árinu sem nú er að líða hafi verið stóð ekki á svörum hjá Sonju:

„Ég held að það hafi verið leikarnir í París. Þrátt fyrir að ég hafi fengið Co­vid úti á meðan á þeim stóð. Það gerði mig bara sterkari.“

Sonja er ein af okkar reynslu­mestu sund­konum og hún er hvergi nærri hætt.

„Ég er nú orðin 34 ára. Búin að æfa í tuttugu og sjö ár. Ég held eitt­hvað áfram. Það er HM á næsta ári.“

Og kannski fleiri Ólympíu­leikar?

„Já vonandi. Stefni þangað.“

En skipta öll þessi met og verð­laun sem hún er að vinna til ein­hverju máli?

„Þetta skiptir allt máli en mestu máli skiptir að hafa trú á sjálfum sér. Hitt er bara bónus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×