Erlent

For­stjóri FBI hyggst stíga til hliðar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Wray var skipaður í embættið til tíu ára árið 2017.
Wray var skipaður í embættið til tíu ára árið 2017. AP

Christopher Wray forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) hyggst láta af störfum sem forstjóri embættisins áður en Donald Trump verður formlega settur inn í forsetaembættið í janúar. 

AP hefur eftir heimildum að Wray hafi tilkynnt þetta á fundi innan alríkislögreglunnar fyrir skömmu. 

Ein og hálf vika er síðan Donald Trump sagðist vilja skipta Wray út fyrir Kash Patel, lögfræðing og fyrrverandi saksóknara. Patel hefur verið virkur talsmaður þess að minnka vald alríkislögreglunnar verulega. 

Á fundinum í dag á Wray að hafa sagst hafa hugsað sig um í margar vikur áður en hann ákvað að stíga til hliðar. 

Wray var tilnefndur í embættið af Donald Trump árið 2017 til tíu ára. Hann hefur sætt gagnrýni vegna rannsókna alríkislögreglunnar á málum sem snertu Trump eftir að Joe Biden tók við forsetaembættinu árið 2020. 

„Ég er ekkert rosalega ánægður með hann. Hann réðist inn á heimili mitt,“ sagði Trump nýlega í samtali við blaðamann NBC. Alríkislögreglan gerði húsleit á heimili hans í Flórída árið 2022 eftir að hann neitaði að láta í té trúnaðargögn að lokinni embættistíð sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×