Innlent

Læknar sam­þykkja nýjan kjara­samning

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Steinunn Þórðardóttir er formaður Læknafélags Íslands.
Steinunn Þórðardóttir er formaður Læknafélags Íslands. Vísir/Arnar

Félagar í Læknafélagi Íslands samþykktu með afgerandi hætti nýjan kjarasamning félagsins við ríkið. 

Þetta kemur fram í stuttri tilkynningu á vef félagsins. Samningurinn var undirritaður 28. nóvember síðastliðinn en atkvæðagreiðslu um hann lauk klukkan ellefu í dag. 

Atkvæði greiddu 1.029 eða 81,6 prósent þeirra sem höfuð atkvæðisrétt. Þar af samþykktu 889, eða 86 prósent, samninginn en 116 sögðu nei, eða 11 prósent. Þá tóku 24 félagar ekki afstöðu til samningsins, eða um tvö og hálft prósent. 

Erfiðara að píska læknum út

Í gær sagði Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, að ferlið fram að undirritun samningsins hafi verið langt og strangt. Síðasti samningur, sem var til eins árs, hafi verið eins konar vopnahlé. 

Þá sagði hún að samningurinn myndi breyta landslagi lækna á vinnumarkaði. 

„Aðal áherslan er á betri vinnutíma, á styttingu vinnuvikunnar niður í 36 tíma og líka svolítið á það að allar okkar vaktir gangi upp í þessa 36 klukkutíma vinnuskyldu, sem var ekki raunin. Við vorum mörg hver að taka vaktirnar í rauninni ofan á 40 tíma vinnuviku og það taldist ekki inn í vinnutímann. Ég tel að vinnuframlag okkar sé sýnilegra og það sé erfiðara að píska læknum út,“ sagði Steinunn í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×