Innlent

Leggja til þjónustu­kjarna fyrir hættu­lega og veika fanga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fangagangi á Litla-Hrauni.
Frá fangagangi á Litla-Hrauni. Vísir/Vilhelm

Starfshópur sjö ráðuneyta leggur til að byggður verði upp miðlægur þjónustukjarni fyrir einstaklinga sem hafa brotið af sér en eru ýmist dæmdir sakhæfir og hættulegir eftir afplánun, ósakhæfir eða talið að refsing beri engan árangur.

Þetta kom fram í minnisblaði með fyrstu tillögum starfshóps sjö ráðuneyta um úrbætur á úrræðum og þjónustu vegna einstaklinga sem nauðsynlegt þykir að sæti sérstökum öryggisráðstöfunum sem kynnt var á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Um er að ræða einstaklinga sem hafa brotið af sér en eru ýmist dæmdir sakhæfir og hætta talin stafa af þeim eftir afplánun, dæmdir ósakhæfir, eða talið að refsing muni ekki bera árangur og sæta því öryggisráðstöfunum og viðeigandi meðferð.

Hópurinn telur nauðsynlegt að samhæfa þjónustu og úrræði vegna þessara einstaklinga en að málum kemur fjöldi ráðuneyta auk sveitarfélaga. Áskoranir stjórnvalda snúa ekki síst að ómarkvissri þjónustu og skorti á búsetuúrræðum fyrir einstaklinga sem hafa fengið dóm eða úrskurð um öryggisgæslu. Þá er talin þörf á skýrari ábyrgð og lagaumgjörð um framkvæmd vægari öryggisráðstafana, meðal annars til að tryggja réttaröryggi eftir að afplánun í fangelsi lýkur.

Til að bregðast við framangreindu gerir starfshópurinn eftirfarandi tillögur:

  • Byggður verði upp miðlægur þjónustukjarni allra ábyrgðaraðila með samþættri þjónustu á einum stað.
  • Stofnuð verði stigskipt sérhæfð úrræði á grundvelli dóma og úrskurða, áhættumats og mats á þjónustuþörf þar sem öryggis verði gætt. Samþætt félags- og geðheilbrigðisþjónusta verði veitt á viðeigandi hátt á hverju þjónustustigi.
  • Unnið verði lagafrumvarp um framkvæmd öryggisráðstafana og viðeigandi breytingar gerðar á almennum hegningarlögum, lögum um heilbrigðisþjónustu og fleiri lögum.
  • Eftirlit með úrræðum verði bætt og reglulegt endurmat á öryggisráðstöfunum tryggt.

Hópurinn áréttar einnig að breyta þurfi fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda þannig að rétt úrræði séu fyrir hendi þegar þeirra er þörf. Rannsóknir sýni fram á að með markvissri snemmtækri íhlutun sé hægt að koma í veg fyrir fjölgun einstaklinga sem þurfa á öryggisráðstöfunum að halda á fullorðinsárum.

Hópurinn sem leiddur er af forsætisráðuneyti mun halda áfram að vinna að frekari tillögum í þessum málum en í honum eru einnig fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og innviðaráðuneyti.


Tengdar fréttir

Hafna því að standa sig ekki í að finna fötluðu fólki heimili

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafnar því að borgin standi sig ekki nægilega vel í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Margir þeirra geðfötluðu einstaklinga sem borgin sinni hafi haft lögheimili í öðrum sveitarfélögum við komuna á geðdeild en breyti um lögheimili til að auka líkur á að fá viðeigandi húsnæði eða þjónustu sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×