Handbolti

Mikil spenna í Eyjum

Sindri Sverrisson skrifar
Ásbjörn Friðriksson var að vanda áberandi í liði FH í dag.
Ásbjörn Friðriksson var að vanda áberandi í liði FH í dag. vísir/Anton

ÍBV og Íslandsmeistarar FH gerðu jafntefli, 26-26, í miklum spennuleik í Olís-deild karla í handbolta í Vestmannaeyjum í dag.

ÍBV komst reyndar í 8-4 en FH skoraði fimm næstu mörk og eftir það var leikurinn hnífjafn og spennandi fram á síðustu sekúndu.

FH-ingar voru 13-11 yfir í hálfleik og höfðu frumkvæðið framan af seinni hálfleik en Eyjamenn komust svo yfir, 23-22, þegar Gauti Gunnarsson skoraði sjö mínútum fyrir leikslok.

En FH náði svo aftur forystunni, 26-25, með marki Jóhannesar Bergs Andrasonar áttatíu sekúndum fyrir leikslok.

Dagur Arnarsson náði að jafna metin fyrir ÍBV tæpri mínútu fyrir leikslok en sá tími nægði FH ekki til að finna sigurmark og niðurstaðan því jafntefli.

Ásbjörn Friðriksson og Jóhannes Berg skoruðu sex mrk hvor fyrir FH og Birgir Már Birgisson fimm. Hjá ÍBV voru Dagur og Gauti markahæstir með sex mörk hvor og Kári Kristján Kristjánsson skoraði fimm.

Til stóð að ÍBV og FH myndu mætast aftur næsta miðvikudag, í Powerade-bikarnum, en þeim leik hefur verið frestað vegna óvissu um endanlega niðurstöðu í bikarleik ÍBV og Hauka, en búist er við niðurstöðu áfrýjunardómstóls í næstu viku.

FH er nú með 22 stig í efsta sæti Olís-deildarinnar, þremur stigum á undan Aftureldingu sem nú á leik til góða. ÍBV er með 14 stig í 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×