Handbolti

Mos­fellingar stálu stigi í há­spennu­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Einar Baldvin varði vel í marki Aftureldingar.
Einar Baldvin varði vel í marki Aftureldingar. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Afturelding missti af tækifærinu að minnka forskot FH á toppi Olís-deildarinnar eftir að liðið gerði jafntefli við KA á Akureyri í kvöld. KA var grátlega nálægt því að næla í bæði stigin í leiknum.

Leikurinn á Akureyri í kvöld var jafn og spennandi. KA var einu skrefi á undan í fyrri hálfleiknum en aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Staðan í hálfleik var 15-14 KA í vil. 

Svipað var uppi á teningunum í seinni hálfleik. Liðin skiptust á að skora lengst af en þegar tæpar tíu mínútur voru eftir náði KA tveggja marka forskoti í stöðunni 25-23. Þegar ein og hálf mínúta var eftir var staðan 28-26 fyrir heimamenn og Afturelding í brekku.

Þeim tókst hins vegar að jafna metin með því að skora síðustu tvö mörkin og var það fyrrum Þórsarinn Ihor Kopyshynskyi sem jafnaði með marki þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

28-28 jafntefli því niðurstaðan en Afturelding mistókst því að minnka forskot FH á toppi Olís-deildarinnar en FH gerði jafntefli við ÍBV í Eyjum í dag. Afturelding er í 2. sæti með 20 stig og er tveimur stigum á eftir FH. KA er hins vegar í 8. - 10. sæti með 10 stig, jafnmörg og HK og Grótta.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti stórleik fyrir KA og skoraði tólf mörk og Einar Rafn Eiðsson skoraði átta. Ihor Kopyshynskyi var markahæstur hjá Mosfellingum með sex mörk og Hallur Arason kom næstur með fimm mörk.

Nicolai Kristensen og Bruno Bernat vörðu samtals þrettán skot í marki KA en Einar Baldvin Baldvinsson varði sextán skot í marki Aftureldingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×