Handbolti

Af­henti Þóri gjöf á blaða­manna­fundi eftir leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir lyftir Evróputitlinum í leikslok.
Þórir lyftir Evróputitlinum í leikslok. Facebooksíða EHF

Það er engum blöðum um það að fletta að Þórir Hergeirsson nýtur mikillar virðingar í handboltaheiminum. Það kom berlega í ljós á blaðamannafundi eftir úrslitaleik Noregs og Danmerkur á Evrópumótinu í dag.

Þórir Hergeirsson stýrði norska landsliðinu til sjötta Evrópumeistaratitils liðsins í dag þegar Noregur lagði Dani að velli í úrslitaleik í Vín. Þetta er ellefti stóri titillinn sem norska liðið vinnur undir stjórn Þóris sem mun láta af störfum nú að mótinu loknu.

Á blaðamannafundi eftir leik sat Þórir fyrir svörum ásamt þjálfara danska liðsins Jesper Jensen. Undir lok fundarins hóf Jensen mikla lofræðu þar sem hann talaði um samband sitt og Þóris og sagði Íslendinginn hafa hækkað ránna í handknattleik kvenna á heimsvísu.

„Með norska liðinu hefur þú sett ný viðmið í handknattleik kvenna. Það er erfitt að kveðja þig eftir fimmtán ár. Þú hefur verið frábær kollegi, bæði í landsliðinu og félagsliði mínu í Danmörku þar sem eru norskir leikmenn. Við höfum borið mikla virðingu fyrir hvor öðrum,“ sagði Jensen á meðan Þórir hlustaði á.

Hann sagðist hafa viljað vinna Þóri í síðasta leiknum en norska liðið vann öruggan sigur eftir frábæra frammistöðu í síðari hálfleik.

Jensen tók síðan upp gjöf sem hann sagðist hafa tekið með sér frá Danmörku áður en mótið hófst.

„Þetta er góður kollegi,“ sagði Þórir, augljóslega djúpt snortinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×