Fótbolti

Elías á skotskónum í Hollandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elías Már fagnar marki sínu í kvöld.
Elías Már fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty

Elías Már Ómarsson skoraði eina mark NAC Breda sem mætti AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta er þriðja mark Elísar á tímabilinu.

NAC Breda eru nýliðar í hollensku úrvalsdeildinni en Elías Már hefur verið á mála hjá félaginu í tæp tvö ár. Fyrir leikinn gegn AZ Alkmaar í dag var NAC Breda um miðja hollensku deildinna en gestirnir frá Alkmaar í 6. sæti.

Strax á 11. mínútu var Elías Már búinn að koma sér á blað í leiknum. Hann skoraði þá eftir sendingu Boy Kemper og kom NAC Breda 1-0 yfir.

Þannig var staðan allt þar til stundarfjórðungur var eftir en þá jafnaði Írinn Troy Parrott metin fyrir gestina. Í uppbótartíma skoraði Mees de Wit síðan sigurmark AZ Alkmaar og tryggði þeim sigurinn. Grátleg niðurstaða fyrir Elías Má og félaga sem eru í 9. sæti hollensku deildarinnar eftir tapið.

Mark Elíasar var hans þriðja á tímabilinu en það fyrsta síðan í annari umferð en hann skoraði í fyrstu tveimur leikjum NAC Breda á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×