Skoðun

Fórnarlamb víðtæks samsæris

Dagur B. Eggertsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn - Dagur B. Eggertsson skrifar um samsærið gegn Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði stórt í síðustu kosningum. Það var ósanngjarnt og algerlega að ósekju. Orsakanna var vitanlega ekki að leita í stefnu eða framgöngu forystu flokksins. Þess vegna þarf að elta uppi og hegna þeim sem bera ábyrgð á afhroðinu. Það voru fjölmiðlar og fjármálamenn, dómstólar og prestar, læknar og líknarfélög. Að ógleymdum matvörubúðunum.

Þetta er gömul saga og ný. Slysið frá 1994 endurtók sig 1998 og Sjálfstæðisflokkurinn tapaði borgarstjórnarkosningum án þess að eiga það skilið. Forsætisráðherra benti réttilega á að þetta væri Ríkissjónvarpinu að kenna. Í kjölfarið hefur verið tekið til hendinni á útvarpinu.

Við lá að Alþingiskosningarnar 1999 töpuðust vegna samsæris Þjóðhagsstofnunar, OECD og Samfylkingarinnar. Þetta þjóðhættulega lið sagði fyrir um stórfellda gengisfellingu og kollsteypu vegna aðhaldsleysis í ríkisfjármálum. Þótt freistandi hefði verið að leggja niður OECD og banna Samfylkinguna var látið nægja að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Forsætisráðherra fer jú hóflega með vald sitt. Gengið féll um tugi prósenta. Dómstólarnir hafa einnig setið um ríkisstjórnina. Þeir hafa fylgt lögum en ekki línunni, einsog reyndar úrskurðanefndirnar, Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis. Eðlilega fengu þeir orð í eyra. Einboðið var að þrengja að héraðsdómsstólunum. Hæstiréttur er svo sérkapituli. Guð sé lof að hægt hefur verið að skipa þangað almennilega menn til að dæma rétt.

Viðskiptalífið hefur þó ef til vill átt erfiðast með að finna taktinn. Það hefur gengið svo langt að eignir og félög hafa skipt um hendur án samráðs við forystu Sjálfstæðisflokksins. Aðeins með vel skipulögðum leynifundum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins var hægt að tryggja rétt eignarhald á Íslandsbanka. Sem betur fer var sölu ríkisbankanna þó blessunarlega handstýrt.

Samsærismenn og félög eru vitanlega miklu fleiri. Læknafélag Íslands sem þóttist vera annt um persónuvernd (hver trúir því?), 75% prófessora sem vildu að jafnræðisreglunni væri fylgt ("Þessir ágætu prófessorar þurfa að lesa stjórnarskránna"), Gallup sem leyfði sér að spyrja um afstöðu til Evrópusambandsins ("virðist hafa einhvern sérstakan málstað að verja"), að ógleymdu Öryrkjabandalaginu, Mæðrastyrksnefnd og öllum sem heita Jón eða Sigurður.

Forsætisráðherra er vorkunn. Hann sem gengur glaður að hverju verki á óvini sem sitja um hann við hvert fótmál. Í hans sporum er erfitt að verjast tárum. Þjóðin hefur orðið vitni að mestu ofsóknum Íslandssögunnar í seinni tíð.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×