Skoðun

Frestum 15 metrunum

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Í borgarkerfinu er víðast hvar verið að leita nýrra leiða við að hagræða í þjónustu við borgarbúa. Hin svokallaða 15 metra regla í sorphirðu er ein slík leið. Þó að hugmyndafræðin sem liggur að baki reglunni sé góð má margt betur fara í hugmyndum um framkvæmd hennar.

Þegar ákvörðunin um 15 metra regluna var tekin í umhverfis- og samgönguráði litu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins svo á að um væri að ræða hugmynd sem vert væri að skoða í borgarkerfinu. Okkur þótti það jákvæð þróun að leitað væri leiða til að tryggja að borgarbúar gætu ákveðið sjálfir hvernig þeir notuðu þjónustu borgarinnar. Út frá þeirri hugmyndafræði er hægt að rökstyðja að það sé sanngjarnt að þeir sem valdi auknum kostnaði við sorphirðu umfram aðra hafi val um að annað hvort bregðast við til að lækka kostnað, eða greiða fyrir hann.

Ef fara á í slíkar aðgerðir er hins vegar mikilvægt að gæta að jafnræði, sanngirni og góðu samstarfi við borgarbúa. Framkvæmd 15 metra reglunnar hefur verið metnaðarfull að mörgu leyti en því miður hefur ekki tekist að koma í veg fyrir atriði sem valda því að reglan er ekki eins sanngjörn og vonir stóðu til. Ekki er til dæmis sanngjarnt að íbúar í ólíkum stigagöngum sömu blokkar, eða í húsum raðhúsalengja sem eru fjærst lóðarmörkum, standi ekki jafnfætis nágrönnum sínum hvað varðar gjaldheimtu. Þá getur það heldur ekki talist sanngjarnt að íbúar við öskustíga eða í gömlum hverfum þurfi að hlíta reglunni þar sem þeir eiga oft ekki val um færa tunnurnar vegna gróins skipulags. Ef íbúar hafa ekki raunverulegt val um hvernig þeir kjósa að bregðast við 15 metra reglunni getur hún varla talist sanngjörn.

Ef regla sem þessi á að standa undir tilgangi sínum verður hún að vera unnin í sátt við borgarbúa og því er mikilvægt að vafaatriði séu túlkuð þeim í hag. Gildistöku 15 metra reglunnar ætti því að fresta þar til búið er að tryggja að framkvæmd hennar sé sanngjörn. Einungis þá er réttlætanlegt að biðja Reykvíkinga um samstarf sem tryggir borgarbúum sanngjarnt val um hvernig þeir nota þjónustu borgarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×