Skoðun

Þar sem ábyrgðin liggur

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Tilkynnt hefur verið um óvenju margar nauðganir eftir síðustu verslunarmannahelgi. Það er viðbúið að þegar viðbjóðslegir glæpir eiga sér stað verði fólki umhugað um hvernig megi koma í veg fyrir þá. Umræðan síðustu daga hefur því einkennst af vangaveltum um hvort gæsla og aðbúnaður á útihátíðum sé nægileg og hvort þjónusta við þolendur sé góð. Það er skiljanlegt og sjálfsagt að velta við öllum steinum í svo mikilvægri umræðu til að reyna að gera betur.

Hins vegar er hættulegt að ætla að leggja of mikið traust og ábyrgð á utanaðkomandi aðstæður, þegar staðreyndin er sú að það eru gerendur hverju sinni sem eru þeir einu sem bera ábyrgð á því ofbeldi sem þeir beita. Það er því hættulegt að ætla að treysta á reglusetningu með einhverjum fyrirfram ákveðnum viðmiðum um hvað sé nægilegur aðbúnaður. Slíkar reglusetningar leysa aldrei grunnvandann og varpa í raun ábyrgðinni frá ofbeldismanninum.

Það er synd að í umræðunni undanfarna daga hefur farið of mikil orka í að benda á alla aðra en ofbeldismennina. Það gerir málaflokknum engan greiða að umræðan endi í skotgröfum um tæknileg atriði. Það er ekki hægt að ákveða í fundarherbergjum stjórnsýslunnar með hvaða hætti gæsla er nægileg til að ekkert kynferðisbrot eigi sér stað. Hver er fullkominn fjöldi gæslumanna? 42? Það er ekki lausnin að flóðlýsa Dalinn og girða af skúmaskot. Það er ekki heldur lausnin að gleyma sér í orðræðu um hver veitir nauðsynlega aðstoð fyrir þolendur kynferðisbrota, þar sem það sem skiptir mestu er að það sé gert.

Viðbjóðslegir glæpir hafa áhrif á okkur og það er mannlegt að vilja finna hinn gullna ramma sem kemur í veg fyrir þá. En það er vert að minna á að heimurinn horfir með aðdáun til Noregs um hvernig þeir vinna úr sínum harmleik, og það er með meiri upplýsingu, opinni umræðu, virðingu og kærleika. Í stóra samhenginu er gæslan og sálgæslan í Eyjum góð, Stígamót eru góð, Neyðarmóttaka nauðgana er góð, forvarnahópar eru góðir og útihátíðir eru góðar. Hins vegar eru það ömurlegir ofbeldismenn sem eru ekki góðir. Til að sporna við nauðgunum þurfum við að muna það.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×