Skoðun

Stuðningsgrein: Af hverju er Ólafur Ragnar besti kosturinn?

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir skrifar
Fyrstu kynni mín af Ólafi Ragnari Grímssyni voru þegar ég var að alast upp og heyrði mömmu ræða að hún hefði verið send niður á þing af kennara í stjórnmálafræði við HÍ og var verkefni hennar sem  stjórnmálafræðinema að horfa á og læra af alþingismönnum.  Seinna átti hún að færa rök fyrir hver væri að hennar mati besti ræðumaðurinn. Álit hennar sem og margra nemanna var að Ólafur hefði borið af öðrum þingmönnum fyrir rökfestu, sannfæringu og málafylgju.

Rökfesta og ræðusnilld eru nokkrir af mörgum kostum Ólafs Ragnars og hafa nýst honum vel í embætti forseta Íslands. Ég hef aldrei verið stoltari af honum sem forseta en í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þegar þjóðin átti undir högg að sækja sótti Ólafur Ragnar fram á erlendum vettvangi og útskýrði sjónarmið Íslendinga fyrir erlendum blaðamönnum og ráðamönnum. Rökfesta hans, þekking og færni í erlendum tungumálum varð til þess að á sjónarmið Íslendinga var hlustað.

Hann er verðmætur fulltrúi þjóðarinnar bæði hér heima og erlendis og hefur átt drjúgan þátt í að endurheimta mannorð Íslendinga á erlendum vettvangi.

Ég þekki til nokkurra sem hafa leitað til forsetaembættisins og óskað eftir aðstoð forsetans við afhendingu viðurkenninga og verðlauna. Í öll skiptin hefur það verið auðsótt mál og hefur forsetinn sett mikinn svip á þessar hátíðir og flutt ræður sem eftir hefur verið tekið. Hann hefur verið uppbyggjandi og hvetjandi og stappað stálinu í fólk. Hann hefur hvatt það til dáða, vakið athygli á því sem vel er gert og lagt áherslu á að við Íslendingar tölum okkur ekki niður heldur komum auga á hinn mikla auð sem er í þessu landi og þau tækifæri sem hér er að finna – ekki síst fyrir ungt fólk.

Við þurfum sterkan leiðtoga sem kemur auga á það jákæða og hvetur til dáða. Ólafur Ragnar Grímsson er besti kosturinn sem forseti lýðveldisins Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×