Skoðun

Stuðningsgrein: "Djöfull ertu heppinn!“

Ingimar Karl Helgason skrifar
Það er útbreitt viðhorf að karlmaður sé fyrirvinna. En líka má spyrja hvers vegna við karlar skyldum vilja forgangsraða lífi okkar þannig að svipta okkur sjálfa tíma með börnunum, og þeim tíma með okkur?

Ég á tvö börn, eins og þriggja ára. Ég hef notið þeirrar gæfu að fá að verja með þeim miklum tíma. Hverri stund sem ég hef verið heima hefur verið vel varið. En þetta getur líka tekið á taugarnar. Í einhverju örvæntingarkasti yfir því að vera að missa af öllu utan heimilis, heyri ég í vini mínum og rek honum raunir mínar. Hans svar var þetta: „Djöfull ertu heppinn!"

Þetta var vinur minn Svavar Halldórsson. Maður sem kann að forgangsraða. Hann var ekki lengi að leiða mér fyrir sjónir að þótt þetta væri stundum erfitt, þá fengist ekkert betra en að fá að vera með börnunum sínum. Þau væru það eina sem ekki mætti missa af. Auðvitað er þetta rétt hjá honum. Og ég tek mark á Svavari.

Við Svavar unnum saman á fréttastofu Útvarpsins og mér varð strax ljóst að mjög mikið er í þennan mann spunnið. Hann er ósérhlífinn harðjaxl sem lætur sig samt aldrei muna um að rétta öðrum hjálparhönd.

Svavar er með gildin sín á hreinu. Hann lagði sig fram um að búa dætrum sínum gott heimili; heimili sem varð yndislegra eftir að þau Þóra rugluðu saman reitum og börnunum fjölgaði.

Svavar er maður sem getur farið á sjó til veiða, gert að afla, eldað, lagt á borð, gengið frá og vaskað upp. Hann tekur sig jafn vel út, hvort sem er við smíðar eða þegar hann les fyrir börnin.

Það viðhorf er nú sýnilegt að kona skyldi ekki sækjast eftir frama fyrr en barnauppeldi er lokið. Krakkarnir eigi að vera orðnir sjálfbjarga eða jafnvel farnir að heiman. Þá fyrst getur hún sýnt hvað í henni býr.

Tilfellið er að börnin eiga pabba. Og það engan smá pabba!

Að við eygjum möguleika á því að þessi maður komi á Bessastaði ásamt sinni konu og sínum börnum kveikir því þessa hugsun: Við erum heppin!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×