Skoðun

Jákvæð samræða eða dómharka og stimplun?

Kristín Linda Jónsdóttir skrifar
Nú kjósum við. Við Íslendingar erum svo lánsöm að búa við lýðræði og nú er það verkefni okkar, hvers og eins, að kjósa þann einstakling sem við sjálf viljum sem forseta Íslands.

Kosningabaráttan er í hámarki í samfélaginu öllu, allt frá kaffistofum og eldhúsborðum til fjölmiðla og stræta. Fólk tekst á, leitar leiða til að sannfæra hvert annað, vinna félagana á sitt band, afla atkvæða fyrir sinn frambjóðanda.

Þetta ferli getur verið ljómandi skemmtilegt, umræðan gagnleg og hleypt lífi í hversdaginn en það getur líka tekið á, dregið niður, skapað neikvæðni og átök. Ekki aðeins fyrir frambjóðendur og hörðustu stuðningsmenn þeirra heldur alla. Því að þrátt fyrir allt tal um nýtt Ísland, þjóðfundi og ný gildi getum við, þessi fámenna þjóð á eyjunni í Atlantshafi, sýnt samferðamönnum okkar, hvert öðru, ótrúlega neikvæðni, fyrirlitningu og virðingarleysi, ekki síst þegar kemur að kosningum. Sá sem ekki kýs A heldur B er dæmdur og flokkaður í stað þess að virðing sé borin fyrir skoðunum hans og gildum. Þetta er áberandi í samfélagi nútímans þar sem aðgangur að netmiðlum er óheftur og fólki gefst auk þess kostur á að hringja í fjölmiðla og tjá sig dag hvern.

Við berum öll ábyrgð á að móta samfélagið og koma þannig fram við samferðamenn okkar að þeir geti verið stoltir af sínum lýðræðislegu skoðunum þó þær séu aðrar en okkar. Klínum ekki merkimiðum á skoðanir annarra og drögum úr dómhörkunni! Sýnum hvert öðru þá virðingu að virða lýðræðislegt frelsi okkar sem einstaklinga til að kjósa þann frambjóðanda sem við sjálf viljum án þess að uppskera andúð, fordóma og virðingarleysi frá fólkinu sem við umgöngumst. Það sýnir hvorki víðsýni, umburðarlyndi né mannúð að fordæma val annarra og stimpla þá og flokka sem lakari eða óskynsamari þó þeir séu ekki á sama máli og þú. Það er bæði þröngsýni og hroki að líta niður á þá samferðamenn sem eru þér ósammála og það á ekki aðeins við í þessum kosningum heldur öllum. Kjarni lýðræðisins er rétturinn til að hafa skoðun, vera ósammála, en lifa í sátt og virða samferðafólk sitt.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×