Er allt smjör gæðasmjör? Þorsteinn Pálsson skrifar 3. nóvember 2012 08:00 Samkvæmt þeirri siðferðisreglu sem mótar lífsafstöðu þjóðlíf og löggjöf á Íslandi, þá er skylt annaðhvort að láta afskiftalaust ellegar hæla uppí hástert sérhverju verki sem unnið er lakar en í meðallagi. Sé unnið betur, er verið að brjóta grundvallarboðorð þjóðfélagsins um lýðræðislegt meðallag og þar með vakin upp lýðræðisleg öfund; og opinberir aðiljar verða að skerast í leikinn og úrskurða alt smjör gæðasmjör." Þessar setningar úr Íslendingaspjalli Halldórs Laxness eru að sönnu settar á blað löngu áður en menn tóku að rífast um stjórnarskrána á Alþingi. En öll meðferð þess máls bendir til að siðferðisreglan sem skáldið lýsir lifi enn góðu lífi hálfum fimmta áratug síðar. Sá skammi tími sem stjórnlagaráði var ætlaður leyfði ekki þau vönduðu vinnubrögð sem endurskoðun stjórnarskrár krefst. Pólitísk ábyrgð á því verklagi hvílir á herðum forsætisráðherra. Hann hefur nú úrskurðað að hálfnað verk sé fullkomin stjórnarskrá, samin af þjóðinni sjálfri og þar af leiðandi hafin yfir gagnrýni. Engum dettur lengur í hug að setja smjör á markað án þess að hreinlæti við framleiðsluna sé vottað og það standist gæðapróf sérfróðra manna. Þetta er gert til að vernda neytendur, án þess að nokkur hafi borið brigður á bragðskyn þeirra. Í manna minnum hefur enginn mjólkurbússtjóri hafnað gæðaeftirliti með þeim rökum að það væri móðgun við neytendur. Forsætisráðherra vill hins vegar ekki að sérfræðingar segi álit sitt á stjórnarskrárgerðinni því að það feli í sér vantraust á fólkið í landinu.Ruglandi og róttækni Stjórnarskrárhugmyndirnar eru róttækar um flest þau atriði sem ekki eiga heima í stjórnarskrá heldur almennum lögum eða stefnuyfirlýsingum stjórnamálaflokka. Þar er til að mynda verið að lofa ómældum útgjöldum úr ríkissjóði og mæla fyrir um stjórn fiskveiða. Þetta eru viðfangsefni sem snerta hugmyndafræðilegar átakalínur stjórnmálanna. Stjórnarskráin á hins vegar að geyma þær leikreglur sem slíkar ákvarðanir eru teknar eftir á hverjum tíma. Kjósendur velja þingmenn til að taka þær ákvarðanir á grundvelli stefnuyfirlýsinga. Þeir skipa þeim málum síðan með almennum lögum. Þegar meirihlutinn ætlar að festa eigin pólitík sína í stjórnarskrá, þannig að örðugra verði að skipta um stjórnarstefnu í almennum kosningum, er verið að eyðileggja stjórnarskrána. Hún er þá ekki lengur skipulagsskrá eða grundvallarlög. Lýðræðið veikist að sama skapi. Þegar kemur að þeim efnisatriðum sem lúta beint að stjórnskipulagi ríkisins fer lítið fyrir róttækum hugmyndum en því meir fyrir ruglingslegri hugsun og skorti á rökvísi. Ýmis álitamál hafa verið rædd á undanförnum árum varðandi vald forseta Íslands og stöðu Alþingis. Vissulega er gerð tilraun til að taka á þeim viðfangsefnum. Af gögnum stjórnlagaráðs má ráða að margvíslegar hugmyndir hafa verið uppi. Trúlega er það vegna tímaskorts að lausnin hefur verið sú að hræra þeim saman fremur en að greina í sundur. Niðurstaðan er óvissa um margt og skortur á rökrænu samhengi. Frekar er dregið úr pólitískri ábyrgð en að auka, og ákvarðanataka verður óskilvirkari þegar þörf er á skilvirkni.Að hæla í hástert Þó að veigamikil rök mæli með viðhaldi þingræðisreglunnar mátti rökræða róttækar hugmyndir eins og aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds og jafnvel leyfa fólki að taka afstöðu til þeirra. Þess í stað er lagt til að fjölga þingmönnum stjórnarflokka til að ráðherrar þurfi ekki að mæta við atkvæðagreiðslur á Alþingi. Öll skynsemi mælir þó með því að fækka þingmönnum verulega. Veigamikil rök hníga í þá átt að sameina forsetaembættið stöðu forseta Alþingis eða fela forsætisráðherra að gegna þjóðhöfðingjaskyldunum. Þá er það tímaskekkja að lög séu háð undirritun handhafa framkvæmdavaldsins. Með öllu er sneitt hjá róttækri hugsun um stjórnskipuleg efni af þessu tagi. Nú má einnig endurskoða stjórnarskrána með hófsemd. Eigi að síður þurfa breytingarnar að fullnægja kröfum um aukinn skýrleika, skilvirkni og ríkari pólitíska ábyrgð. Helsta áhugaverða nýmælið snýr að kosningafyrirkomulaginu. Þó að þær hugmyndir kalli á stjórnmálafræðilega úttekt miða þær að því að brjóta upp meingallað kerfi og verðskulda því frekari skoðun og umræðu. Spurningin er þessi: Er ekki vegur að forystumenn stjórnlagaráðsins og sérfræðingar í lögum, stjórnmálafræðum og hagvísindum taki að sér það hlutverk sem mjólkurbússtjórar og gæðaeftirlitsmenn hafa á sínu sviði og knýi á um að vinnslu stjórnarskrármálsins verði lyft úr því fari að hæla í hástert því sem unnið er lakar en í meðallagi? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson Skoðun Fyrstu jólin eftir ástvinamissi Anna Sigurðardóttir Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun Lýðræði hinna sterku Jón Páll Hreinsson Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen Skoðun
Samkvæmt þeirri siðferðisreglu sem mótar lífsafstöðu þjóðlíf og löggjöf á Íslandi, þá er skylt annaðhvort að láta afskiftalaust ellegar hæla uppí hástert sérhverju verki sem unnið er lakar en í meðallagi. Sé unnið betur, er verið að brjóta grundvallarboðorð þjóðfélagsins um lýðræðislegt meðallag og þar með vakin upp lýðræðisleg öfund; og opinberir aðiljar verða að skerast í leikinn og úrskurða alt smjör gæðasmjör." Þessar setningar úr Íslendingaspjalli Halldórs Laxness eru að sönnu settar á blað löngu áður en menn tóku að rífast um stjórnarskrána á Alþingi. En öll meðferð þess máls bendir til að siðferðisreglan sem skáldið lýsir lifi enn góðu lífi hálfum fimmta áratug síðar. Sá skammi tími sem stjórnlagaráði var ætlaður leyfði ekki þau vönduðu vinnubrögð sem endurskoðun stjórnarskrár krefst. Pólitísk ábyrgð á því verklagi hvílir á herðum forsætisráðherra. Hann hefur nú úrskurðað að hálfnað verk sé fullkomin stjórnarskrá, samin af þjóðinni sjálfri og þar af leiðandi hafin yfir gagnrýni. Engum dettur lengur í hug að setja smjör á markað án þess að hreinlæti við framleiðsluna sé vottað og það standist gæðapróf sérfróðra manna. Þetta er gert til að vernda neytendur, án þess að nokkur hafi borið brigður á bragðskyn þeirra. Í manna minnum hefur enginn mjólkurbússtjóri hafnað gæðaeftirliti með þeim rökum að það væri móðgun við neytendur. Forsætisráðherra vill hins vegar ekki að sérfræðingar segi álit sitt á stjórnarskrárgerðinni því að það feli í sér vantraust á fólkið í landinu.Ruglandi og róttækni Stjórnarskrárhugmyndirnar eru róttækar um flest þau atriði sem ekki eiga heima í stjórnarskrá heldur almennum lögum eða stefnuyfirlýsingum stjórnamálaflokka. Þar er til að mynda verið að lofa ómældum útgjöldum úr ríkissjóði og mæla fyrir um stjórn fiskveiða. Þetta eru viðfangsefni sem snerta hugmyndafræðilegar átakalínur stjórnmálanna. Stjórnarskráin á hins vegar að geyma þær leikreglur sem slíkar ákvarðanir eru teknar eftir á hverjum tíma. Kjósendur velja þingmenn til að taka þær ákvarðanir á grundvelli stefnuyfirlýsinga. Þeir skipa þeim málum síðan með almennum lögum. Þegar meirihlutinn ætlar að festa eigin pólitík sína í stjórnarskrá, þannig að örðugra verði að skipta um stjórnarstefnu í almennum kosningum, er verið að eyðileggja stjórnarskrána. Hún er þá ekki lengur skipulagsskrá eða grundvallarlög. Lýðræðið veikist að sama skapi. Þegar kemur að þeim efnisatriðum sem lúta beint að stjórnskipulagi ríkisins fer lítið fyrir róttækum hugmyndum en því meir fyrir ruglingslegri hugsun og skorti á rökvísi. Ýmis álitamál hafa verið rædd á undanförnum árum varðandi vald forseta Íslands og stöðu Alþingis. Vissulega er gerð tilraun til að taka á þeim viðfangsefnum. Af gögnum stjórnlagaráðs má ráða að margvíslegar hugmyndir hafa verið uppi. Trúlega er það vegna tímaskorts að lausnin hefur verið sú að hræra þeim saman fremur en að greina í sundur. Niðurstaðan er óvissa um margt og skortur á rökrænu samhengi. Frekar er dregið úr pólitískri ábyrgð en að auka, og ákvarðanataka verður óskilvirkari þegar þörf er á skilvirkni.Að hæla í hástert Þó að veigamikil rök mæli með viðhaldi þingræðisreglunnar mátti rökræða róttækar hugmyndir eins og aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds og jafnvel leyfa fólki að taka afstöðu til þeirra. Þess í stað er lagt til að fjölga þingmönnum stjórnarflokka til að ráðherrar þurfi ekki að mæta við atkvæðagreiðslur á Alþingi. Öll skynsemi mælir þó með því að fækka þingmönnum verulega. Veigamikil rök hníga í þá átt að sameina forsetaembættið stöðu forseta Alþingis eða fela forsætisráðherra að gegna þjóðhöfðingjaskyldunum. Þá er það tímaskekkja að lög séu háð undirritun handhafa framkvæmdavaldsins. Með öllu er sneitt hjá róttækri hugsun um stjórnskipuleg efni af þessu tagi. Nú má einnig endurskoða stjórnarskrána með hófsemd. Eigi að síður þurfa breytingarnar að fullnægja kröfum um aukinn skýrleika, skilvirkni og ríkari pólitíska ábyrgð. Helsta áhugaverða nýmælið snýr að kosningafyrirkomulaginu. Þó að þær hugmyndir kalli á stjórnmálafræðilega úttekt miða þær að því að brjóta upp meingallað kerfi og verðskulda því frekari skoðun og umræðu. Spurningin er þessi: Er ekki vegur að forystumenn stjórnlagaráðsins og sérfræðingar í lögum, stjórnmálafræðum og hagvísindum taki að sér það hlutverk sem mjólkurbússtjórar og gæðaeftirlitsmenn hafa á sínu sviði og knýi á um að vinnslu stjórnarskrármálsins verði lyft úr því fari að hæla í hástert því sem unnið er lakar en í meðallagi?
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir Skoðun