Þjóðrembingslegt stolt Sara McMahon skrifar 18. mars 2013 06:00 Hver kannast ekki við að finna til svolítils stolts þegar útlendingar hrósa heimalandinu á einhvern hátt? Eða þeirrar réttmætu reiði sem blossar upp ef sami útlendingur segir nokkuð niðrandi eða ljótt um heimahagana? Það mun seint líða mér úr minni þegar austurrískur maður hélt því eitt sinn fram að besta vatn í heimi væri að finna í austurrísku Ölpunum. Það veit hvert mannsbarn að besta vatn í heimi finnst á Íslandi! Tilfinningum sem þessum mætti lýsa sem þjóðarstolti, sjálf kýs ég að kalla fyrirbærið þjóðernisrembing og fáir rembast meira en ég. Ég er útblásin af rembingi. Ég er nefnilega alin upp í þeim skelfilegu aðstæðum að eiga þrjú heimalönd. Móðuramma mín var sænsk og líkt og margir brottfluttir einstaklingar hélt hún fast í sænskar hefðir. Móðurafi minn var íslenskur og eins og hann er ég fædd og uppalin á Íslandi. Pabbi minn er svo írskur og þar býr stórfjölskyldan. Að auki bjó ég í nokkur ár í Danmörku og ber enn sterkar taugar til þess lands, enda veittu Danir mér námsstyrk þegar LÍN vildi ekki lána. Ég veit að besti bjór í heimi er írski Guinnessinn. Bestu kjötbollurnar koma frá Svíþjóð. Besta smörrebrauðið finnst í Danmörku og besta vatnið á uppsprettu sína á Íslandi en ekki í Týról, líkt og ofannefndur Austurríkismaður hélt fram. Þetta veit ég fyrir víst og ég sit við minn keip, sama hvað tautar og raular. Það getur þó verið erfitt að rogast í gegnum lífið með þennan rembing á herðum sér og þá sérstaklega þegar Eurovision-söngkeppnina ber að garði. Þá held ég með öllum og engum. Ef heimalöndin þrjú tapa öll verða vonbrigði mín þreföld á við flestra og það er ansi slæm staða að vera í. Lukkulega bar Svíþjóð sigur úr býtum í fyrra með slagaranum Euphoria. Ég hafði auðvitað stillt á sænska ríkissjónvarpið til að fá sigurinn beint í æð á hljómfagurri sænskunni. Þetta varð þó skammgóður vermir því í miðjum fagnaðarlátunum hvolfdist svekkelsið fyrir hönd Íslands og Írlands yfir mig. Þvílíkt böl að geta ekki fagnað án þess að syrgja um leið! Það er ekkert að því að vera stoltur af uppruna sínum, heimalandi og samlöndum (þá helst íþróttaköppum og Nóbelsverðlaunahöfum), en þegar rembingurinn er farinn að hafa áhrif á sálartetrið er líklega kominn tími til að slaka aðeins á, anda rólegar og halda bara með sjálfum sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sara McMahon Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson Skoðun
Hver kannast ekki við að finna til svolítils stolts þegar útlendingar hrósa heimalandinu á einhvern hátt? Eða þeirrar réttmætu reiði sem blossar upp ef sami útlendingur segir nokkuð niðrandi eða ljótt um heimahagana? Það mun seint líða mér úr minni þegar austurrískur maður hélt því eitt sinn fram að besta vatn í heimi væri að finna í austurrísku Ölpunum. Það veit hvert mannsbarn að besta vatn í heimi finnst á Íslandi! Tilfinningum sem þessum mætti lýsa sem þjóðarstolti, sjálf kýs ég að kalla fyrirbærið þjóðernisrembing og fáir rembast meira en ég. Ég er útblásin af rembingi. Ég er nefnilega alin upp í þeim skelfilegu aðstæðum að eiga þrjú heimalönd. Móðuramma mín var sænsk og líkt og margir brottfluttir einstaklingar hélt hún fast í sænskar hefðir. Móðurafi minn var íslenskur og eins og hann er ég fædd og uppalin á Íslandi. Pabbi minn er svo írskur og þar býr stórfjölskyldan. Að auki bjó ég í nokkur ár í Danmörku og ber enn sterkar taugar til þess lands, enda veittu Danir mér námsstyrk þegar LÍN vildi ekki lána. Ég veit að besti bjór í heimi er írski Guinnessinn. Bestu kjötbollurnar koma frá Svíþjóð. Besta smörrebrauðið finnst í Danmörku og besta vatnið á uppsprettu sína á Íslandi en ekki í Týról, líkt og ofannefndur Austurríkismaður hélt fram. Þetta veit ég fyrir víst og ég sit við minn keip, sama hvað tautar og raular. Það getur þó verið erfitt að rogast í gegnum lífið með þennan rembing á herðum sér og þá sérstaklega þegar Eurovision-söngkeppnina ber að garði. Þá held ég með öllum og engum. Ef heimalöndin þrjú tapa öll verða vonbrigði mín þreföld á við flestra og það er ansi slæm staða að vera í. Lukkulega bar Svíþjóð sigur úr býtum í fyrra með slagaranum Euphoria. Ég hafði auðvitað stillt á sænska ríkissjónvarpið til að fá sigurinn beint í æð á hljómfagurri sænskunni. Þetta varð þó skammgóður vermir því í miðjum fagnaðarlátunum hvolfdist svekkelsið fyrir hönd Íslands og Írlands yfir mig. Þvílíkt böl að geta ekki fagnað án þess að syrgja um leið! Það er ekkert að því að vera stoltur af uppruna sínum, heimalandi og samlöndum (þá helst íþróttaköppum og Nóbelsverðlaunahöfum), en þegar rembingurinn er farinn að hafa áhrif á sálartetrið er líklega kominn tími til að slaka aðeins á, anda rólegar og halda bara með sjálfum sér.