Skoðun

Sögulegur Kínasamningur

Össur Skarphéðinsson skrifar
Í anda Asíugáttarinnar sem ég hef þróað sem utanríkisráðherra undirritaði ég í Peking sl. þriðjudag fríverslunarsamning við Kína. Ísland er fyrsta Evrópuþjóðin sem nær þessum sögulega árangri. Allar þjóðir í Evrópu standa hins vegar í biðröð eftir því að gera slíkan samning því hann skapar störf, og lækkar verð til neytenda.

Um leið eigum við í viðræðum gegnum EFTA um fríverslun við Indland, Malasíu, Víetnam, og höfum lagt drög að viðræðum við Taíland og Mjanmar. Ástæðan er sú, að öll þessi lönd eru á fljúgandi ferð í efnahagsmálum. Strax árið 2020 mun Kína verða stærra efnahagsveldi en Bandaríkin, og síðar á öldinni er spáð að Indland yfirtaki Bandaríkin líka. Í löndum Asíugáttarinnar fjölgar millistéttinni hröðum skrefum. Hún verður drifafl neyslu og hagvaxtar á þessari öld. Ég lít á Asíugáttina sem leið til að skapa nýræktir fyrir íslenska framleiðslu á næstu árum og áratugum.

Fríverslunarsamningurinn við Kína skapar störf og býr til markaði fyrir jafnt hefðbundna framleiðslu sem splunkuný tækifæri. Ef Íslendingar spila rétt úr sínum kortum geta þeir þróað sterkan markað fyrir hefðbundnar fiskafurðir. Nú þegar hafa frosin þorskflök náð táfestu á kínverska markaðnum og með niðurfellingu tolla á íslenskan fisk gæti kínverski markaðurinn reynst haldreipi fyrir hefðbundnar afurðir andspænis miklu framboði á þorski úr Barentshafi.

Afurðir sem hafa verið lítils virði, s.s. grásleppuhveljur og sæbjúgu, skapa þar gríðarleg verðmæti. Um leið er í Kína vaxandi markaður þar fyrir hvers konar íslenskt kjöt, heilnæmar mjólkurafurðir eru þar eftirsóttar, og Guðni Ágústsson ætti því að geta selt þar allt skyr Íslands.

Um leið verða til ómæld tækifæri fyrir háþróaða iðnaðarframleiðslu eins og tölvuleiki, gervifætur og matvælatengd tæki, og gleymum ekki því að afnám 17% tolla á koltrefjar mun laða fjárfesta til Íslands til að framleiða þetta framtíðarefni í bíla og flugvélar inn á Kína.

Það kemur hins vegar ekkert af sjálfu sér. Samningurinn opnar gríðarleg tækifæri og með honum ná Íslendingar forskoti umfram aðrar þjóðir. Það er undir Íslendingum sjálfum komið hvernig úr honum verður spilað.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×