Skoðun

Samfylkingin er velferðarflokkur

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Heilbrigðisþjónusta óháð efnahag er eitt stærsta velferðarmálið. Samfylkingin mun því nýta það svigrúm sem er að skapast í ríkisrekstrinum til uppbyggingar í heilbrigðismálum og við höfum nú þegar náð fram mikilvægum umbótum til jöfnuðar í heilbrigðiskerfinu.

Tannlækningar barna

Nýr samningur um tannlækningar barna hefur verið undirritaður, sá fyrsti í 21 ár. Framvegis munu öll börn hafa sinn eigin heimilistannlækni sem mun boða börn í reglulegt eftirlit, sjá um forvarnir og aðrar nauðsynlegar tannlækningar þeirra. Foreldrar munu einungis greiða komugjald sem ákveðið verður með reglugerð.

Réttlátara lyfjagreiðslukerfi

Nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfið er einfaldara og réttlátara en núgildandi kerfi. Það mun auka jöfnuð, hætta að mismuna sjúklingum eftir sjúkdómum og verja þá sem mest þurfa á lyfjum að halda fyrir miklum kostnaði. Þeir sem lítið nota af lyfjum munu þurfa að borga meira en áður. Öryrkjar, aldraðir, börn og barnafjölskyldur eru varin fyrir háum greiðslum öðrum fremur. Velferðarráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði við læknishjálp, lyf og þjálfun og stórhækkað fjárhæða- og tekjumörk til að mæta aðstæðum tekjulágra sem kunna að lenda í erfiðleikum með upphafsgreiðslur fyrir lyf í nýju lyfjagreiðsluþátttökukerfi. Samfylkingin vill útvíkka kerfið þannig að það nái einnig til heilbrigðisþjónustu.

Nýr Landspítali

Samfylkingin mun leggja ofuráherslu á byggingu nýs Landspítala til að tryggja öryggi sjúklinga, boðlegt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk og til að auka rekstrarhagræði. Með nýju sjúkrahúsi munu um þrír milljarðar sparast árlega í rekstri en sjúkrahúsið er í sautján byggingum í dag.

Betri almannatryggingar

Fyrsta velferðarmál Samfylkingarinnar eftir kosningarnar verður að leggja fram frumvarp um nýtt almannatryggingakerfi. Með nýju kerfi munu meðaltalsgreiðslur til ellilífeyrisþega hækka um 25% og kerfið verður einfaldara og skiljanlegra. Sambærilegar breytingar fyrir örorkulífeyrisþega eru forgangsmál á næsta kjörtímabili.

Við viljum jöfnuð og velferð óháð efnahag – þess vegna er mikilvægt að styðja Samfylkinguna í kosningunum á laugardag.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×