Skoðun

Alþýðufylkingin og kosningarnar

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Kreppan hefur varpað ljósi á nauðsyn róttækra breytinga á íslensku samfélagi. Undanfarna áratugi hefur ójöfnuður verið aukinn kerfisbundið með auknu fáveldi í íslenskum fjármálaheimi. Almenningur hefur verið miskunnarlaust féflettur með verðbótum og vaxtaokri á húsnæðislánum. Auðmenn koma hundraða milljarða gróða í skjól meðan enn stærri skuldum er velt yfir á almenning gegnum ríkissjóð, lífeyrissjóði og húsnæðisskuldir. Aukinn hagvöxtur mun að óbreyttu ekki bæta þetta ástand heldur þveröfugt.

Skuldir heimilanna

Nauðsynlegt er að létta á byrði heimilanna í landinu með því að taka kúfinn af húsnæðislánum sem hafa stökkbreyst í kreppunni um leið og greiðslugeta flestra hefur minnkað. Þó er enn þá mikilvægara að huga að nýju félagslegu kerfi til fjármögnunar húsnæðis fyrir almenning. Með því að hætta að sækja fé að láni á okurvöxtum á markaði til húsnæðislána en safna þess í stað samfélagslegu eigin fé til að lána til húsnæðiskaupa að vissu hámarki án vaxta og verðbóta er hægt að spara miklar greiðslur frá almenningi til auðmanna.

Lífeyrissjóðir og framfærslutrygging

Alþýðufylkingin vill vinna að samkomulagi um algera uppstokkun lífeyriskerfisins. Grundvöllur þess gæti verið nokkurra ára aðlögun að sömu lífeyrisréttindum fyrir alla sem fjármagnað væri gegnum skattkerfið með óverulegri sjóðsöfnun. Greiðslur í lífeyrissjóði verði stöðvaðar og hætt að þvinga fólk til að kaupa sér ótrygg lífeyrisréttindi með greiðslum í fjárfestingasjóði. Einfalda þarf lífeyriskerfið og koma á samræmdri framfærslutryggingu fyrir alla sem ekki geta unnið fyrir sér á vinnumarkaði.

Velferð og aukin lífsgæði

Alþýðufylkingin leggur sérstaka áherslu á að endurreisa velferðarkerfið og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið. Byrjað verði á að draga til baka þann mikla niðurskurð sem átt hefur sér stað undanfarin ár og vinda ofan af einkarekstri og viðskiptavæðingu í kerfinu. Markmið heilbrigðiskerfisins á að vera aukið heilbrigði þjóðarinnar en ekki gróði auðfélaga af fjárfestingum og viðskiptum með þjónustu. Efling velferðarkerfisins verður aðeins kostuð með þeim samfélagslega sparnaði sem felst í félagsvæðingu í fjármálakerfinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×