Skoðun

Regnboginn svíkur ekki

Haraldur Ólafsson skrifar
Ýmsum kann að þykja villugjarnt að ferðast í skógi framboða að þessu sinni. Lítum nánar á.

Félagshyggjumegin í litrófi stjórnmálanna er eitt framboð sem hefur æpandi sérstöðu. Það er Regnboginn.

Í ranni Regnbogans er fólk sem hefur þá bjargföstu skoðun að heppilegast sé að Íslandi sé til frambúðar stjórnað að fólki sem þiggur umboð sitt frá íbúum landsins, en ekki frá rentukammeri í útlöndum, hvar sem það kann að vera hverju sinni. Nú er sótt að þessu stjórnarfyrirkomulagi af ákafa. Nóg er af vilyrðum um gull og græna skóga ef valdið verður sent þangað sem það verður ekki sótt aftur. Um það er kosið núna.

Sérstaða Regnbogans felst í að þar ráða þeir einir húsum sem ekki hafa skipt um skoðun daginn eftir kosningar án þess að nokkuð hafi gerst annað en að kjörstöðum var lokað. Í Regnboganum er enginn sem þegið hefur fúlgur fjár til að smyrja gangverk innlimunar Íslands í verðandi stórríki gömlu evrópsku nýlenduveldanna. Þar hefur heldur enginn boðið áróðursvél þessa sama stórríkis hingað heim svo hún megi með styrk úr ótæmandi sjóðum mylja nýja sannleika til brúks í margumræddri þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt verður til jafnskjótt og vindar verða hagstæðir.

Í Regnboganum gera menn sér glögga grein fyrir að ekki þarf að sækja umboð til að hætta umboðslausri vegferð og þar dettur engum í hug að lýðræði felist í að kjósa um afstöðu til erlends stórríkis undir drununum frá áróðursvélum þessa sama stórríkis. Þetta er sérstaða sem vert er að gefa gaum. Ekki spillir svo að Regnbogafólkið vill fara vel með náttúruna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×