Glíman við ríkisfjármálin Ólafur Þ. Stephensen skrifar 14. júní 2013 08:44 Formenn stjórnarflokkanna kynntu í fyrradag stöðuna í ríkisfjármálum, sem er verri en þeir bjuggust við. Bæði vantar upp á tekjuhlið fjárlaganna og útgjöld hafa farið fram úr áætlun, auk þess sem ólíklegt er talið að áform um eignasölu ríkisins gangi eftir. Samanlagt þýðir þetta að fjórtán milljarða gat gæti orðið til í fjárlögunum umfram það sem þegar var áætlað. Afkoma ríkissjóðs á næsta ári gæti orðið 27 milljörðum verri en að var stefnt. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að engu að síður sé stefnt að því að afgreiða fjárlög næsta árs án halla. „Það verður hins vegar að koma í ljós á næstu vikum hversu raunhæft það markmið er,“ sagði hann á blaðamannafundi formannanna. Stjórnarandstaðan gagnrýnir stjórnina fyrir að hafa nú þegar lagt fram tvö frumvörp sem skerða tekjur ríkissjóðs um nokkra milljarða. Annars vegar á að lækka sérstaka veiðigjaldið og hins vegar að draga til baka hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Þarna er þó verið að draga til baka ákvarðanir, sem voru á sínum tíma óverjandi. Það er ekki óeðlilegt að greiddur sé sami virðisaukaskattur af ferðaþjónustu og annarri atvinnustarfsemi, en fyrirvarinn sem atvinnugreininni var gefinn til aðlögunar var alltof stuttur. Hvað veiðigjaldið varðar voru lögin um það annars vegar óframkvæmanleg, af því að gögn skortir til að byggja gjaldtökuna á, og hins vegar lagðist gjaldið svo þungt á sumar útgerðir, ekki sízt þær smærri, að það gróf undan tilverugrundvelli þeirra. Það breytir ekki því að þessar ákvarðanir, og áform um lækkun fleiri skatta, til dæmis virðisaukaskatts á barnaföt og gjalda á eldsneyti, gera verkefni fjármálaráðherrans enn snúnara. Ríkisstjórnin hefur lofað ýmsum nýjum útgjöldum, til dæmis í almannatryggingakerfinu. Ef hún ætlar ekki að hækka neina skatta eða gjöld, verður hagræðingarnefndin sem búið er að stofna að koma fram með býsna afgerandi niðurskurðartillögur, sem gera má ráð fyrir að verði pólitískt erfiðar í framkvæmd. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í fyrradag kom fram að ákveðin óvissa ríkti um áformin í opinberum fjármálum. Þar var líka ítrekað hversu mikilvægt væri að ná sem fyrst jöfnuði í ríkisfjármálunum, þannig að stefnan í þeim efnum styddi við peningastefnuna. Það er hverju orði sannara og raunar afskaplega mikilvægt fyrir alla efnahagsþróun í landinu að ríkisstjórnin taki það verkefni sitt alvarlega að binda enda á hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs. Að einu leyti eru áform ríkisstjórnarinnar þó líkleg til að verða áfram í óvissu, raunar lengur en þar til fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós. Enn hefur ekki verið útskýrt eða útfært hvernig eigi að standa að stórfelldri niðurfellingu húsnæðisskulda án þess að það komi á nokkurn hátt niður á ríkissjóði. Raunar má halda því fram að ábyrg og aðhaldssöm ríkisfjármálastefna, sem vinnur gegn vaxtahækkunum, þenslu og verðbólgu, sé betri fyrir heimilin í landinu á heildina litið en skuldalækkunarskýjaborgirnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson Skoðun
Formenn stjórnarflokkanna kynntu í fyrradag stöðuna í ríkisfjármálum, sem er verri en þeir bjuggust við. Bæði vantar upp á tekjuhlið fjárlaganna og útgjöld hafa farið fram úr áætlun, auk þess sem ólíklegt er talið að áform um eignasölu ríkisins gangi eftir. Samanlagt þýðir þetta að fjórtán milljarða gat gæti orðið til í fjárlögunum umfram það sem þegar var áætlað. Afkoma ríkissjóðs á næsta ári gæti orðið 27 milljörðum verri en að var stefnt. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að engu að síður sé stefnt að því að afgreiða fjárlög næsta árs án halla. „Það verður hins vegar að koma í ljós á næstu vikum hversu raunhæft það markmið er,“ sagði hann á blaðamannafundi formannanna. Stjórnarandstaðan gagnrýnir stjórnina fyrir að hafa nú þegar lagt fram tvö frumvörp sem skerða tekjur ríkissjóðs um nokkra milljarða. Annars vegar á að lækka sérstaka veiðigjaldið og hins vegar að draga til baka hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Þarna er þó verið að draga til baka ákvarðanir, sem voru á sínum tíma óverjandi. Það er ekki óeðlilegt að greiddur sé sami virðisaukaskattur af ferðaþjónustu og annarri atvinnustarfsemi, en fyrirvarinn sem atvinnugreininni var gefinn til aðlögunar var alltof stuttur. Hvað veiðigjaldið varðar voru lögin um það annars vegar óframkvæmanleg, af því að gögn skortir til að byggja gjaldtökuna á, og hins vegar lagðist gjaldið svo þungt á sumar útgerðir, ekki sízt þær smærri, að það gróf undan tilverugrundvelli þeirra. Það breytir ekki því að þessar ákvarðanir, og áform um lækkun fleiri skatta, til dæmis virðisaukaskatts á barnaföt og gjalda á eldsneyti, gera verkefni fjármálaráðherrans enn snúnara. Ríkisstjórnin hefur lofað ýmsum nýjum útgjöldum, til dæmis í almannatryggingakerfinu. Ef hún ætlar ekki að hækka neina skatta eða gjöld, verður hagræðingarnefndin sem búið er að stofna að koma fram með býsna afgerandi niðurskurðartillögur, sem gera má ráð fyrir að verði pólitískt erfiðar í framkvæmd. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í fyrradag kom fram að ákveðin óvissa ríkti um áformin í opinberum fjármálum. Þar var líka ítrekað hversu mikilvægt væri að ná sem fyrst jöfnuði í ríkisfjármálunum, þannig að stefnan í þeim efnum styddi við peningastefnuna. Það er hverju orði sannara og raunar afskaplega mikilvægt fyrir alla efnahagsþróun í landinu að ríkisstjórnin taki það verkefni sitt alvarlega að binda enda á hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs. Að einu leyti eru áform ríkisstjórnarinnar þó líkleg til að verða áfram í óvissu, raunar lengur en þar til fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós. Enn hefur ekki verið útskýrt eða útfært hvernig eigi að standa að stórfelldri niðurfellingu húsnæðisskulda án þess að það komi á nokkurn hátt niður á ríkissjóði. Raunar má halda því fram að ábyrg og aðhaldssöm ríkisfjármálastefna, sem vinnur gegn vaxtahækkunum, þenslu og verðbólgu, sé betri fyrir heimilin í landinu á heildina litið en skuldalækkunarskýjaborgirnar.