Skoðun

Umferðarteppan og úthverfin

Dagur B. Eggertsson skrifar
Umferðarteppan sem alltaf myndast kvölds og morgna þegar skólar byrja á haustin ætti að vekja okkur til umhugsunar. Ef við höldum áfram að þróa byggðina lengra í austur mun það auka á þessa umferð og rýra lífsgæði þeirra sem búa í Árbæ, Breiðholti, Grafarholti og Grafarvogi, ekki síður en þeim hverfum sem stofnbrautirnar liggja í gegnum. Það er vegna þess að umferð úr nýju hverfi í austri myndi bætast við umferðina um Ártúnsbrekku, Miklubraut eða Sæbraut til og frá vinnu. Viðbótarbílarnir myndu fylla göturnar, hægja á umferðinni og auka ferðatímann.

Þetta eru ein sterkustu umferðarrökin fyrir því að þróa byggðina í Reykjavík inn á við og „þétta hana“. Útreikningar og reynsla sýna að það er eina leiðin til að draga úr umferð, mengun og ferðatíma innan borgarinnar. Ástæðan er sú að stærstu vinnustaðirnir og skólarnir eru á miðborgarsvæðinu. Þétting byggðar styttir meðalferðina milli heimilis og vinnu og minnkar þannig heildarumferðina á höfuðborgarsvæðinu. Með þéttingu byggðar er verið að verja lífsgæði þeirra sem búa í okkar góðu úthverfum og komið í veg fyrir alvöru umferðarsultu framtíðarinnar.

Sumir hafa haldið því fram að þetta sé öfugt. Að þétting byggðar sé vond fyrir austari hluta borgarinnar. Einfalt dæmi sýnir að þetta er rangt: hvað myndi gerast ef við myndum bæta 25.000 manna byggð við á landfyllingum í sjónum vestan við Seltjarnarnes og beina umferðinni úr því hverfi eftir núverandi götum á nesinu? Jú, umferðin myndi aukast og stíflast og Seltirningar fyndu sannarlega fyrir því. Þetta er nákvæmlega eins fyrir Árbæ, Breiðholt, Grafarholt eða Grafarvog ef við bætum við nýjum 25.000 manna hverfum austan við þessi hverfi.

Áframhaldandi útþensla byggðar er ógn við þau miklu lífsgæði sem úthverfi Reykjavíkur bjóða. Þess vegna er stefnt að því að þróa borgina inn á við í nýju aðalskipulagi, og þess sérstaklega gætt að það sé ekki gert á kostnað grænna svæða. Græn svæði eru lungu borgarinnar sem við eigum að standa saman um að verja til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×