Skoðun

Of auðvelt að taka meira

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Ímyndum okkur að þegar borgarstjórn biður Reykvíkinga um að taka af fjármunum sínum til að leggja í sameiginlegan sjóð eigi þeir að mæta í Ráðhúsið, standa í röð og rétta borgarfulltrúum peningaseðlana sína. Það væri augljóslega ekki skilvirkt, en þannig yrði þó líklega borin meiri virðing fyrir því að útsvarið er peningar borgarbúa sem þeir treysta að farið sé með eins vel og hægt er.

Nú er útsvarið í Reykjavík í leyfilegu hámarki; 14,48% af því sem borgarbúar vinna sér inn. Útsvarsprósentu má aldrei líta á sem lögmál heldur á hún alltaf að vera til skoðunar með það að markmiði að borgarbúar haldi sem mestu eftir af tekjunum.

Parkinson nokkur setti fram lögmál um að hvert verkefni sem unnið væri hjá hinu opinbera tæki þann tíma sem því væri úthlutað. Seinna setti Niskanen fram kenningar um að forsvarsmenn opinberra stofnana hefðu tilhneigingu til að þenja út umsvif þeirra, nema kjörnir fulltrúar settu þeim mörk.

Með þetta til hliðsjónar má velta fyrir sér hvort það segi sig ekki sjálft að væri leyfilegt útsvar hærra, væri það áfram nýtt upp í topp. Ef það væri lægra, væri að sama skapi fundið út úr því.

Undanfarin ár hefur aðhaldið verið fært frá borgarkerfinu yfir á borgarbúa með hærri álögum. Þegar unnið er með abstrakt tölur í Excel-skjölum tapast skynjunin á að við erum að tala um beinharðar og dýrmætar ráðstöfunartekjur borgarbúa. Þess vegna er líka alltof auðvelt að hækka útsvarið um prósentubrot.

Það væri ekki eins auðvelt að biðja borgarbúa að koma aftur í Ráðhúsið og standa aftur í röð til að borga aðeins meira – og líklegra að kerfið myndi rýna tölurnar betur til að þurfa ekki að biðja þá um það. Þannig á nálgunin að vera.

Það er lágmark að borgarfulltrúar muni – sérstaklega núna þegar borgarstjórn liggur yfir fjárhagsáætlun – að þeir þurfa að fara með útsvarstekjurnar eins og sérhver borgarbúi hafi gert sér ferð í Ráðhúsið og rétt þeim peningana sína.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×