Skoðun

Gleymda lögsögubeltið

Bjarni Már Magnússon skrifar

Mikið er rætt um Norðurslóðir og þau tækifæri og ógnir sem stafa af hlýnun jarðar af mannavöldum. Í þá umræðu vantar oft nákvæmni. Verður hér bent á eitt atriði sem Alþingi ætti að taka til umhugsunar og í framhaldinu leiða í lög til að bregðast við þeim breytingum sem eru að eiga sér stað.



Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um, í 33. gr., að ríki geti tekið sér svokallað 24 sjómílna aðlægt belti. Í dag hafa um eitt hundrað ríki tekið sér slíkt belti, en ekki Ísland. Á aðlæga beltinu, getur strandríki farið með nauðsynlegt vald annars vegar til að afstýra brotum á lögum og reglum þess í tolla-, fjár-, innflytjenda- og heilbrigðismálum í landi eða landhelgi og hins vegar til að refsa fyrir brot á ofangreindum lögum og reglum sem framin eru í landi eða landhelgi þess.



Á mannamáli þýðir þetta að ríki með 12 sjómílna landhelgi, eins og Ísland, getur tekið sér 12 sjómílna viðbótar lögsögubelti sem snerta innanríkismálefni. Engar skyldur leggjast á íslenska ríkið við að taka sér slíkt belti.



Í þessu samhengi er rétt að benda á að réttindin sem fylgja efnahagslögsögunni, hafsvæðinu sem nær frá 12 sjómílna landhelginni að 200 sjómílum, taka ekki til þeirra málaflokka er fylgja aðlæga beltinu. Ef Ísland tæki sér aðlægt belti leiddi það til þess að íslenska ríkið gæti tekið sér frekari lögsögu á haf út en nú er í tilteknum málaflokkum.

Til að aðlæga beltið verði að veruleika við Íslandsstrendur þyrfti þingmaður að bera fram tiltölulega stutt og einfalt frumvarp til breytinga á lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Er hér með skorað á þingmenn úr öllum flokkum að velta þessu fyrir sér.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×