Fljótandi utanríkispólitík Þorsteinn Pálsson skrifar 15. mars 2014 07:00 Utanríkisráðherra kynnti Alþingi í vikunni nýja Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar í snöggu andsvari við umræðu um þá tillögu hans að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þessi háttur á kynningu málsins fyrir löggjafarþinginu segir allt sem segja þarf um mat ráðherrans sjálfs á mikilvægi nýju stefnunnar. Hún felur aðallega í sér áform um að bregðast vel við ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið á síðustu árum um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ætlunin er til að mynda að hraða sjálfvirkri innleiðingu á reglum sameiginlega innri markaðarins. Allt sem sett hefur verið á blað um þetta efni er til bóta og ástæðulaust að gera lítið úr því. Ríkisstjórnin á þvert á móti hrós skilið fyrir góð áform um bætt vinnulag. Það sem gerir málið broslegt er að upptalning á framkvæmdaatriðum, sem sinna má betur, hljóti svo hástemmda yfirskrift að hún teljist vera ný Evrópustefna. Þó að þessi minnisatriði hafi verið í umræðunni um tíma er augljóst að þeim er breytt í stefnuyfirlýsingu í einhverju fáti og algerlega úr samhengi við allt annað. Það dregur athyglina að þeirri miklu breytingu sem orðið hefur í utanríkismálum. Í stað áratuga stefnufestu koma yfirlýsingar út og suður eftir því hvernig vindarnir blása frá einum tíma til annars. Alþýðubandalagið og síðar VG hafa átt aðild að fimm ríkisstjórnum án þess að losnað hafi um þessa stefnufestu. Nú er utanríkispólitíkin hins vegar komin á flot þannig að erfitt er um vik að glöggva sig á markmiðum og leiðum. Og það hlýtur síðan að vera enn erfiðara fyrir þá sem horfa til landsins utan frá.Býr engin hugsun að baki? Á síðasta kjörtímabili flutti núverandi utanríkisráðherra ásamt fleiri samherjum sínum tillögu til þingsályktunar um fríverslun við Bandaríkin. Í henni var sérstök áhersla lögð á viðskipti með landbúnaðarafurðir. Málinu hefur ekki verið hreyft eftir að tillögumennirnir komust í ríkisstjórn. Flutningsmenn skýrðu aldrei út hvers vegna þeir voru hlynntir frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum frá Bandaríkjunum en andvígir kæmu þær frá Evrópu. Reyndar vissu allir að þeir meintu ekkert með tillögunni og treystu því að hún yrði ekki samþykkt. Hún var aðeins hugsuð sem svar við þeirri gagnrýni að andstaða við frekara Evrópusamstarf fæli í sér hættu á einangrun. Tillagan var augljóslega sett fram í fáti til að aka seglum undan mótvindi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þótti ekki ástæða til að minnast á grundvallarþættina í utanríkispólitík landsins eins og aðildina að Atlantshafsbandalaginu og að innri markaði Evrópusambandsins. Þess í stað komu óljósar setningar um leit að nýjum bandamönnum. Af orðalaginu mátti þó ráða að þar var átt við Kína, Rússland og Indland. Þetta var eftir forskrift forseta Íslands sem lengi hefur barist fyrir því að sveigja utanríkisstefnuna frá Evrópu og Ameríku til þessara landa. Utanríkisráðherra komst fljótt í vörn með þessa stefnu. Eftir það hefur hann kappkostað að halda því fram að ekki eigi að veikja það samstarf sem staðið hefur um langa hríð. Ástæðulaust er að rengja það. En eftir stendur að ný skref má aðeins stíga í aðrar áttir. Það er erfitt að fá heila brú í þá hugsun sem að baki býr. Kannski er hún engin.Líka einangraðir í norðrinu Ríkisstjórnin fékk á sig brotsjó þegar hún ætlaði að láta Alþingi slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið á dögunum. Ofan í þau kaup komu svo aðgerðir Rússa til að innlima Krímskagann. Þegar þannig var komið þótti utanríkisráðherra rétt að beina athyglinni frá áformum um nýja bandamenn. Gömlum minnislista um bætta framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var þá í einhverju óðagoti breytt í nýja Evrópustefnu. Hún veitir aftur á móti engin svör við þeim áskorunum sem við blasa og kalla á stjórnarskrárbreytingar til að halda megi samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið áfram. Það á til dæmis við um nýjar reglur um eftirlit með fjármálastofnunum. Klípa ríkisstjórnarinnar er sú að um leið og hún innleiðir þær falla veigamestu rökin, sem hún hefur notað gegn aðild, um koll. Hvaða gildi hefur ný stefna sem ekki geymir leiðarvísi um lausn á málum sem þegar eru komin á eindaga? Stundum segir utanríkisráðherra að norðurslóðasamstarf eigi að koma í stað nýrra skrefa í Evrópusamvinnu. Nú hafa Færeyingar og Norðmenn skilið Ísland eftir einangrað í makríldeilunni. Einnig á þessum slóðum hefur ríkisstjórninni mistekist að afla bandamanna. Þá er fokið í flest skjól. Þegar utanríkisstefnan er orðin reikul eins og rótlaust þangið er kominn tími til að ræða markmiðin og leiðirnar í meiri alvöru en gert hefur verið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Stjórnlaust útlendingahatur Útlendingastofnunar Jón Frímann Jónsson Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Utanríkisráðherra kynnti Alþingi í vikunni nýja Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar í snöggu andsvari við umræðu um þá tillögu hans að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þessi háttur á kynningu málsins fyrir löggjafarþinginu segir allt sem segja þarf um mat ráðherrans sjálfs á mikilvægi nýju stefnunnar. Hún felur aðallega í sér áform um að bregðast vel við ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið á síðustu árum um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ætlunin er til að mynda að hraða sjálfvirkri innleiðingu á reglum sameiginlega innri markaðarins. Allt sem sett hefur verið á blað um þetta efni er til bóta og ástæðulaust að gera lítið úr því. Ríkisstjórnin á þvert á móti hrós skilið fyrir góð áform um bætt vinnulag. Það sem gerir málið broslegt er að upptalning á framkvæmdaatriðum, sem sinna má betur, hljóti svo hástemmda yfirskrift að hún teljist vera ný Evrópustefna. Þó að þessi minnisatriði hafi verið í umræðunni um tíma er augljóst að þeim er breytt í stefnuyfirlýsingu í einhverju fáti og algerlega úr samhengi við allt annað. Það dregur athyglina að þeirri miklu breytingu sem orðið hefur í utanríkismálum. Í stað áratuga stefnufestu koma yfirlýsingar út og suður eftir því hvernig vindarnir blása frá einum tíma til annars. Alþýðubandalagið og síðar VG hafa átt aðild að fimm ríkisstjórnum án þess að losnað hafi um þessa stefnufestu. Nú er utanríkispólitíkin hins vegar komin á flot þannig að erfitt er um vik að glöggva sig á markmiðum og leiðum. Og það hlýtur síðan að vera enn erfiðara fyrir þá sem horfa til landsins utan frá.Býr engin hugsun að baki? Á síðasta kjörtímabili flutti núverandi utanríkisráðherra ásamt fleiri samherjum sínum tillögu til þingsályktunar um fríverslun við Bandaríkin. Í henni var sérstök áhersla lögð á viðskipti með landbúnaðarafurðir. Málinu hefur ekki verið hreyft eftir að tillögumennirnir komust í ríkisstjórn. Flutningsmenn skýrðu aldrei út hvers vegna þeir voru hlynntir frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum frá Bandaríkjunum en andvígir kæmu þær frá Evrópu. Reyndar vissu allir að þeir meintu ekkert með tillögunni og treystu því að hún yrði ekki samþykkt. Hún var aðeins hugsuð sem svar við þeirri gagnrýni að andstaða við frekara Evrópusamstarf fæli í sér hættu á einangrun. Tillagan var augljóslega sett fram í fáti til að aka seglum undan mótvindi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þótti ekki ástæða til að minnast á grundvallarþættina í utanríkispólitík landsins eins og aðildina að Atlantshafsbandalaginu og að innri markaði Evrópusambandsins. Þess í stað komu óljósar setningar um leit að nýjum bandamönnum. Af orðalaginu mátti þó ráða að þar var átt við Kína, Rússland og Indland. Þetta var eftir forskrift forseta Íslands sem lengi hefur barist fyrir því að sveigja utanríkisstefnuna frá Evrópu og Ameríku til þessara landa. Utanríkisráðherra komst fljótt í vörn með þessa stefnu. Eftir það hefur hann kappkostað að halda því fram að ekki eigi að veikja það samstarf sem staðið hefur um langa hríð. Ástæðulaust er að rengja það. En eftir stendur að ný skref má aðeins stíga í aðrar áttir. Það er erfitt að fá heila brú í þá hugsun sem að baki býr. Kannski er hún engin.Líka einangraðir í norðrinu Ríkisstjórnin fékk á sig brotsjó þegar hún ætlaði að láta Alþingi slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið á dögunum. Ofan í þau kaup komu svo aðgerðir Rússa til að innlima Krímskagann. Þegar þannig var komið þótti utanríkisráðherra rétt að beina athyglinni frá áformum um nýja bandamenn. Gömlum minnislista um bætta framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var þá í einhverju óðagoti breytt í nýja Evrópustefnu. Hún veitir aftur á móti engin svör við þeim áskorunum sem við blasa og kalla á stjórnarskrárbreytingar til að halda megi samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið áfram. Það á til dæmis við um nýjar reglur um eftirlit með fjármálastofnunum. Klípa ríkisstjórnarinnar er sú að um leið og hún innleiðir þær falla veigamestu rökin, sem hún hefur notað gegn aðild, um koll. Hvaða gildi hefur ný stefna sem ekki geymir leiðarvísi um lausn á málum sem þegar eru komin á eindaga? Stundum segir utanríkisráðherra að norðurslóðasamstarf eigi að koma í stað nýrra skrefa í Evrópusamvinnu. Nú hafa Færeyingar og Norðmenn skilið Ísland eftir einangrað í makríldeilunni. Einnig á þessum slóðum hefur ríkisstjórninni mistekist að afla bandamanna. Þá er fokið í flest skjól. Þegar utanríkisstefnan er orðin reikul eins og rótlaust þangið er kominn tími til að ræða markmiðin og leiðirnar í meiri alvöru en gert hefur verið.
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Jólin og börnin okkar: Að leggja áherslu á samveru frekar en gjafir Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun