Komið út úr Euro skápnum Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 10. maí 2014 00:01 Í dag er runninn upp ruglingslegasti dagur ársins í mínu lífi – Eurovision-dagurinn. Það er einhvern veginn ómögulegt að gera það upp við sig hvort maður á að elska þetta batterí eða hata. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá sýnir þessi keppni okkur bæði það versta og besta sem Evrópa býður uppá. Annars vegar langa dagskrá af yfirgengilegri þjóðrembu, helling af vonlausum lögum, illa útfærð atriði, mikið af ljótum búningum og kynna sem sváfu með herðatré í kjaftinum síðasta árið, glaðari en Sigmundur Davíð eftir að hann uppgötvaði Mountain Dew. Og síðan er það öll kvenfyrirlitningin. Hvað segir maður þegar Pólverjar senda atriði með tveimur konum sem hafa það hlutverk eingöngu að annars vegar strokka strokk og hins vegar bleyta sig í bala í flegnum bolum? En á móti er þarna eitthvert aðdráttarafl. Síðustu ár hefur keppnin verið í fararbroddi þegar kemur að umburðarlyndi og skilningi gagnvart minnihlutahópum. Þátttaka allra þessara hópa slær á fordóma og þótt okkur finnist samkynhneigð alveg eðlilegur og sjálfsagður hluti af flórunni þá er því ekki svo farið alls staðar; áhorfendur í Rússlandi hafa til að mynda afar gott af því að sjá samkynhneigða keppendur fara á kostum. Og oft hefur keppnin verið á undan sinni samtíð. Árið 1998 lagði hin ísraelska Dana International Evrópu að fótum sér sem var ekki frásögur færandi nema að hún hafði farið í gegnum kynleiðréttingu. Nú er það stórbrotin mannvera í síðum kjól með slegið hár og alskegg. Hún syngur eins og engill og lætur sér fátt um finnast um normið. Ég reyndi eftir fremsta megni í undankeppninni að vera hipp og kúl eins og sannri 101-rottu sæmir – horfði á atriðin í keppninni með krosslagðar hendur, stútfull af vandlætingu. En þegar úrslitin voru kynnt var ekki möguleiki á að halda andlitinu; ég fagnaði eins og við hefðum unnið heimsmeistaramótið í fótbolta. Þannig verður það líka í kvöld. Ég hef ákveðið að taka afstöðu með umburðarlyndinu, fjölbreytninni og gleðinni. Því verður fagnað langt fram á nótt og á sunnudaginn ranka ég við mér með húsið á hvolfi, heimatilbúna kjörseðla upp um alla veggi, íslenska fánann ofan á koddanum og Gleðibankann á heilanum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Eurovision Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson Skoðun
Í dag er runninn upp ruglingslegasti dagur ársins í mínu lífi – Eurovision-dagurinn. Það er einhvern veginn ómögulegt að gera það upp við sig hvort maður á að elska þetta batterí eða hata. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá sýnir þessi keppni okkur bæði það versta og besta sem Evrópa býður uppá. Annars vegar langa dagskrá af yfirgengilegri þjóðrembu, helling af vonlausum lögum, illa útfærð atriði, mikið af ljótum búningum og kynna sem sváfu með herðatré í kjaftinum síðasta árið, glaðari en Sigmundur Davíð eftir að hann uppgötvaði Mountain Dew. Og síðan er það öll kvenfyrirlitningin. Hvað segir maður þegar Pólverjar senda atriði með tveimur konum sem hafa það hlutverk eingöngu að annars vegar strokka strokk og hins vegar bleyta sig í bala í flegnum bolum? En á móti er þarna eitthvert aðdráttarafl. Síðustu ár hefur keppnin verið í fararbroddi þegar kemur að umburðarlyndi og skilningi gagnvart minnihlutahópum. Þátttaka allra þessara hópa slær á fordóma og þótt okkur finnist samkynhneigð alveg eðlilegur og sjálfsagður hluti af flórunni þá er því ekki svo farið alls staðar; áhorfendur í Rússlandi hafa til að mynda afar gott af því að sjá samkynhneigða keppendur fara á kostum. Og oft hefur keppnin verið á undan sinni samtíð. Árið 1998 lagði hin ísraelska Dana International Evrópu að fótum sér sem var ekki frásögur færandi nema að hún hafði farið í gegnum kynleiðréttingu. Nú er það stórbrotin mannvera í síðum kjól með slegið hár og alskegg. Hún syngur eins og engill og lætur sér fátt um finnast um normið. Ég reyndi eftir fremsta megni í undankeppninni að vera hipp og kúl eins og sannri 101-rottu sæmir – horfði á atriðin í keppninni með krosslagðar hendur, stútfull af vandlætingu. En þegar úrslitin voru kynnt var ekki möguleiki á að halda andlitinu; ég fagnaði eins og við hefðum unnið heimsmeistaramótið í fótbolta. Þannig verður það líka í kvöld. Ég hef ákveðið að taka afstöðu með umburðarlyndinu, fjölbreytninni og gleðinni. Því verður fagnað langt fram á nótt og á sunnudaginn ranka ég við mér með húsið á hvolfi, heimatilbúna kjörseðla upp um alla veggi, íslenska fánann ofan á koddanum og Gleðibankann á heilanum.