Skoðun

Á vængjum minninganna

Bryndís Schram skrifar
Það var troðfullt hús í Salnum í Kópavogi síðastliðinn sunnudag. Það ríkti eftirvænting í loftinu. Hvað mundi koma út úr þessu samstarfi – annars vegar hinn veraldlegi og rökvísi hagfræðingur, sem byggir tilveru sína á staðreyndum og að loka óendanlega fjölbreytni mannlífsins inn í rökrétt samhengi – og svo hinn ljóðræni trúbador, sem eigrar um á sjávarströndu og ljær tilfinningum sínum vængi með fuglum himinsins, hins vegar. Þetta eru hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason og trúbadorinn Kristján Hreinsson. Ólíklegt tvíeyki, skyldi maður ætla. Satt að segja mun ólíklegra en Gylfi Þ., faðir Þorvalds, og Tómas Guðmundsson Reykjavíkurskáld á sinni tíð.

Þeir voru í fínum félagsskap, ekki vantaði það. Kristinn Sigmundsson á fáa sína líka. Ég minnist þess enn, að þegar hann bauð Finnum á ljóðatónleika í Klettakirkjunni í Helsinki, var fyrirsögnin í Helsingin Sanomat daginn eftir: „Við eigum engan svona.“ Fyrir utan þessa djúpu en blæbrigðaríku rödd fer Kristinn afburðavel með texta. Hann kom öllu því til skila, sem í orðunum fólst. Jónas Ingimundarson er þessi óbrigðuli, hógværi og vandaði undirleikari, sem aldrei bregst, og Bryndís Halla á sellóinu léði ljóði og lagi meiri vídd. Það var á köflum, eins og hún yfirtæki flutninginn.

Þetta var hugljúf stund í salnum, óvenjuleg, sérstök. Ég hafði það sterklega á tilfinningunni, að sessunautar mínir lifðu sig inn í stemninguna. Gott ef þá langaði ekki að taka flugið með fuglunum. Sem tónskáld er hagfræðingurinn, Þorvaldur, bæði ljóðrænn og rómantískur. Lögin hans hæfa því vel fleygum hugsunum trúbadorsins. En um hvort tveggja, ljóð og lög, má segja að þau voru helst til einhæf. Það var blessuð blíðan út í gegn. Þeir sem alast upp við fjöruborðið á sjávarströndu vita að þannig er það ekki í lífinu. Hafið skiptir bæði litum og ham. Hamfarirnar stundum slíkar, að heilu klettabeltin eru mölvuð mélinu smærra. Það vottaði ekki fyrir neinum undirtón ógnar né háska. Þar er ekki við tónskáldið að sakast, af því einfaldlega að ljóðin gáfu ekki tilefni til þess.

Lög Þorvaldar nutu sín mjög vel í flutningi meistarans. Þau munu vaxa við kynningu, eins og tíminn mun leiða í ljós. Þegar Kristinn var klappaður upp í lokin, og söng upphafslagið á ný, komu tárin fram í augun – allt sem ljóðskáldið vildi sagt hafa, snart mannleg hjörtu í örfáum meitluðum tónum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×