Skoðun

Jólahefð eða innræting?

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Varaborgarfulltrúi VG, Líf Magneudóttir, stóð fyrir einkennilegu upphlaupi í síðustu viku þegar hún gagnrýndi að Langholtsskóli stæði fyrir hefðbundinni kirkjuferð á aðventunni. Hún sagði „algerlega ólíðandi að skólar hafi milligöngu um trúarinnrætingu barna.“

Fyrir nokkrum misserum voru settar reglur bæði af hálfu ríkis og Reykjavíkurborgar, í báðum tilvikum með atbeina VG, um samskipti skóla og trúfélaga. Umrædd kirkjuferð rúmast vel innan þeirra reglna. Í reglum borgarinnar segir að heimsóknir í tilbeiðsluhús á skólatíma séu undir handleiðslu kennara og liður í fræðslu um trúarbrögð í samræmi við aðalnámskrá. Í viðmiðunum menntamálaráðuneytisins segir: „Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar telst hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar.“

Sú spurning vaknar þá hvers vegna VG ræðst að fagfólkinu í skólunum og sakar það að ósekju um að brjóta reglurnar. Ætlar flokkurinn þá að beita sér fyrir því að þær verði endurskoðaðar þannig að algjörlega verði tekið fyrir kirkjuferðir á aðventunni? Og ætla aðrir í borgarstjórnarmeirihlutanum að styðja þá reglubreytingu?

Foreldrar hafa getað valið að börn þeirra fari ekki með í kirkjuferðir skóla. Það sem er í boði í staðinn þarf þá líka að vera skemmtilegur og metnaðarfullur valkostur. Valfrelsið er gott, en bent hefur verið á að það geti þýtt að einhverjum finnist hann hafður útundan. Við þurfum að vanda okkur við framkvæmdina, en þetta eru ekki rök fyrir að hætta kirkjuferðunum. Við getum spurt sem svo: Ef foreldrar óskuðu þess að börnin þeirra lærðu ekki um önnur trúarbrögð en kristni og legðust gegn því að þau færu til dæmis í vettvangsferð í bænahús múslima, myndu borgaryfirvöld bregðast við þeim óskum með því að afleggja fræðsluna?

Það vekur furðu að á sama tíma og mannréttindaráð borgarinnar leggur áherslu á að efla virðingu fyrir trú og menningu margvíslegra minnihlutahópa skuli formaður þess ráðast að góðri og gamalli jólahefð. Kristið jólahald á sér þúsund ára sögu á Íslandi og er óaðskiljanlegur hluti af okkar menningu, jafnvel þótt margir eða jafnvel flestir taki ekki þátt í því af mikilli trúarsannfæringu. Verðskuldar trúar- og menningararfur meirihluta borgarbúa ekki líka virðingu og umburðarlyndi?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×