Skoðun

Dýraverndarstarf á Íslandi

Hallgerður Hauksdóttir og Linda Karen Gunnarsdóttir skrifar

Velferð dýra er málefni alls almennings. Dýr eru á ábyrgð bæði einstaklinga og samfélagsins með svipuðum hætti og börn. Það er samfélagsins að grípa inn í þegar einstaklingar fara illa með dýr eða börn, en í eðli sínu eru öll velferðarmál samfélagsmál. Margt fólk leggur í ríkum mæli tíma og elju í félagsstarf sem miðar að aukinni velferð dýra, enda er flestu venjulegu fólki í brjóst borin eðlileg samúð gagnvart minni máttar.



Undanfarin ár hafa mörg ný félög og hreyfingar um málefni dýra orðið til sem er mikið ánægjuefni. Vettvangur Fésbókar skapar oft líflegar umræður sem þúsundir manna taka þátt í, sem dæmi um það má nefna síðurnar Hundasamfélagið og Kettir á facebook, sem telja báðar á annan tug þúsunda fylgjenda. Fjölmargar fleiri fésbókarsíður fjalla um málefni dýra. Upp úr slíkri flóru og víðar spretta bæði hugmyndir og ný samtök um málefni dýra.



Við þekkjum mörg Dýrahjálp Íslands sem var stofnuð árið 2008, en félagið hefur aðstoðað við að finna heimili fyrir hátt í fimm þúsund selskapsdýr frá stofnun. Ganga má út frá því að allmörg þeirra hafi fyrir tilstuðlan félagins eignast nýtt heimili en ella hefðu verið aflífuð. Þegar Dýrahjálp var stofnuð var minna um að fólk væri að fá sér stálpuð dýr og segja má að landslagið hafi breyst mjög í kjölfar starfsemi félagsins, hvað möguleika eldri dýra varðar.



Gott starf Kattholts og Fuglaverndar eru dæmi um gamalgróna félagastarfsemi sem flestir þekkja og þau halda sínum takti vel. Sem dæmi um yngri félög má nefna Félag ábyrgra hundaeigenda og svo starfsemi félaga eins og Villikatta og Kisukots á Akureyri, en það síðastnefnda þáði styrk frá Dýraverndarsambandi Íslands nú í vor fyrir frábært starf og elju í þágu veglausra katta á Akureyri.

Linda Karen Gunnarsdóttir meðstjórnandi Dýraverndar­sambands Íslands

Öll félögin eiga skilið virðingu

Dýraverndarsambandið hefur starfað óslitið frá árinu 1914 við ýmsar aðstæður í íslensku þjóðfélagi. Í upphafi snerust málefni þess svo til eingöngu um búfé, en villt dýr bættust fljótlega við og svo málefni selskapsdýra eftir því sem þeim fjölgaði í samfélaginu. Félagið starfar á málefnalegum grunni og kemur að gerð laga- og reglugerða um dýr, auk þess að stuðla að gagnlegri umræðu um velferð dýra og að láta sig einstök mál varða. DÍS er frjáls félagasamtök, en félög af þessu tagi veita nauðsynlegt aðhald. Öll þessi félög og starfsemi eiga virðingu skilið og við fögnum þeirri grósku sem einkennir þetta starf. Allt starf í þágu dýravelferðar er raunar fagnaðarefni og vert að styðja við það.



Dýraverndarsambandið leggur mikla áherslu á að hugmyndir um velferð dýra nái til sem flestra og þess vegna erum við ætíð málefnaleg í okkar nálgun og leggjum áherslu á samvinnu við alla þá sem starfa í anda félagsins. Við leggjum áherslu á góða meðferð dýra hvar sem maðurinn heldur þau eða kemur að umhverfi þeirra, óháð öðrum sjónarmiðum um dýrahald. Við vinnum samkvæmt þeirri sannfæringu okkar að velferð dýra sé samfélagsmál sem allir eiga að láta sig varða. Við vonum að allir sem lesi þetta láti sig velferð dýra varða.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×