Skoðun

Mjór er mikils vísir

Líf Magneudóttir skrifar
Oft kemur það í hlut stjórnvalda að greiða götuna fyrir verkefnum sem ella hefðu ekki fengið brautargengi. Það er nefnilega þannig að lítil verkefni sem ýtt er úr vör af hugsjónafólki verða hreyfiafl þó áhrif þeirra verði ekki metin til fjár sem oft vill vera mælikvarði í samfélagi nútímans.

Þannig verkefni geta hins vegar breytt viðhorfum manna eða gert heiminn á einhvern hátt betri fyrir bæði stóra og litla hópa í samfélaginu. Rannsóknir og athuganir á stöðu ákveðinna hópa geta líka opnað augu okkar fyrir breytingum sem nauðsynlegt er að ráðast í eða þjónustu sem þarf að veita.

Með þessum hætti nýtast einmitt styrkir og styrkveitingar mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Á hverju ári veitir ráðið styrki til félags- og grasrótarsamtaka og einstaklinga. Allt eru þetta styrkir til verkefna sem stuðla að og styðja við mannréttindi með einum eða öðrum hætti. Verkefnin eru margs konar og endurspegla þau fjölbreytni mannlífsins. Oftar en ekki miða þau að því að fræða fólk, vinna gegn hvers kyns fordómum og kynjamisrétti eða rannsaka umhverfi og lífsskilyrði tiltekinna hópa samfélagsins. Öll verkefnin skipta máli fyrir samfélagið til styttri eða lengri tíma.

Nú auglýsir mannréttindaráð eftir styrkumsóknum mannréttindaráðs. Umsóknarfrestur er til og með 22. apríl. Þá auglýsir ráðið einnig eftir tilnefningum til mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar en þeirri útnefningu fylgja peningaverðlaun í fyrsta sinn frá því að þessi verðlaun voru veitt. Fresturinn til að tilnefna til mannréttindaverðlauna Reykjavíkur rennur út 30. apríl. Ég hvet alla til þess að tilnefna verðuga fulltrúa, sem með starfi sínu vinna að mannréttindum og gegn mismunun, til að hljóta mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. Einnig hvet ég alla að sækja um styrki til ráðsins fyrir verkefni sem geta verið lóð á vogaskálar mannréttindabaráttunnar. Það er nefnilega þannig að mjór getur verið mikils vísir.

Tilnefningar til mannréttindaverðlauna má senda á netfangið [email protected] og nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin réttindi til fram­tíðar

Bjarndís Helga Tómasdóttir,Kristmundur Pétursson,Vera Illugadóttir,Jóhannes Þór Skúlason,Hannes Sasi Pálsson,Hrönn Svansdóttir,Sveinn Kjartansson skrifar

Sjá meira


×