Skoðun

Ísland og hörmungar heimsins

Hildur Sverrrisdóttir skrifar
Í vikunni varð mér hugsað til senu úr sjónvarpsþáttunum West Wing þar sem forsetinn og starfslið hans stóðu frammi fyrir því að fundist höfðu í gámi flóttamenn frá Kína. Flóttamennirnir sögðust þurfa pólitískt hæli þar sem þeir væru kristnir og væru því ofsóttir í heimalandinu.

Í umræðum forsetans og aðstoðarmanna hans voru uppi vangaveltur um hvort flóttafólkið segði satt. Þau urðu sammála um að þar sem það hefði kosið að kúldrast í þröngum gámi í margar vikur til að sækja sér frelsi, lægi beinast við að trúa því frekar en að halda að það hefði gert það að gamni sínu.

Það er rétt. Maður getur enda rétt ímyndað sér þær aðstæður í raunheimum á okkar dögum sem hrekja fólk undir þil manndrápsdalla til að flýja yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi, oft með skelfilegum afleiðingum. Það gerir enginn að gamni sínu.

Eins og endranær fylgist Ísland með úr fjarska. Lega landsins heldur okkur oftar en ekki í fjarlægð frá eymd heimsins og veldur því kannski að við sýnum henni ekki næga athygli. Stundum hefur lega landsins beinlínis verið hjálpleg; Ísland var til að mynda eitt fárra ríkja sem segja má að hafi grætt á seinni heimsstyrjöldinni. Stríðsárin voru uppgangstími. Það er ekki hægt að áfellast Ísland fyrir það, ekki bar það ábyrgð á þessu stríði og að hafa grætt á hentugri legu landsins. Við gátum svo sem ekki blandað okkur í þetta stríð; of langt í burtu, of fá, of fátæk, of vanmáttug.

Stundum hvarflar samt að manni að þessi reynsla okkar hafi haft þau áhrif á þjóðarsálina að finnast hörmungar umheimsins í raun ekki koma okkur við. Er í boði að við fylgjumst enn einungis með úr fjarska? Að hörmungar Miðjarðarhafsins komi okkur jafn lítið við og hörmungar seinni heimsstyrjaldar? Miðjarðarhafið er svo sem langt í burtu. En er það enn svo að séum of fá? Of fátæk? Of vanmáttug? Nei. Það erum við ekki. Það væri bragur að því að við hættum að láta sem svo sé.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×