Fordæmið Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 12. maí 2016 07:00 Undanfarnar vikur hafa upplýsingar úr Panama-skjölunum svokölluðu mallað út og haft gríðarleg áhrif á samfélag okkar. Sitjandi forsætisráðherra hefur þurft að segja af sér, boðað hefur verið til þingkosninga í haust og sitjandi forseti tók tímabundna ákvörðun um að hætta við að hætta við að sækjast eftir endurkjöri. Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna opnuðu á mánudag fyrir gagnagrunn með skjölunum þar sem hægt er að skoða félög skráð á aflandssvæðum og einstaklingana sem þar búa að baki. Þar var að finna nöfn fleiri Íslendinga sem eiga eða hafa átt skráð félög í skattaskjólum víðs vegar um heiminn. Þessi opinberun vakti hins vegar ekki jafn mikla athygli, hvað svo sem veldur því. Nöfn ákveðinna einstaklinga koma ef til vill einfaldlega engum á óvart. Eins hafði hinn gríðarlegi fjöldi Íslendinga sem átti aflandsfélög verið gefinn upp og mátti því eiga von á þessum upplýsingum. Engu að síður hefur birting skjalanna hrundið af stað nauðsynlegri umræðu um skattaskjól og skaðsemi þeirra. Skjölin varpa ljósi á skattaundanskot aðila sem nóg áttu fyrir, tilfærslu á fjármunum í hruninu sem „hurfu“ og augljóst tap íslenska ríkisins og þannig allra þjóðfélagsþegna á þessum æfingum. En það má ekki gleyma allra verstu hlið þess að hægt er að eiga fé og rekstur í skattaskjólum. Með því að notast við slík félög, leyna eignarhaldi með því að fela raunverulega eigendur, er heimsins verstu starfsemi gert kleift að þrífast; hryðjuverkum, mansali, vopnasölu og svo framvegis. Í vikunni rituðu 300 hagfræðingar víða að opið bréf í tilefni af ríkjaráðstefnu um spillingu sem haldin verður í næstu viku. Leiðtogar 40 ríkja sækja ráðstefnuna. Þeir segja skattaskjólin þjóna hinum ríkari og alþjóðafyrirtækjum og að hagnaður þeirra sé á kostnað allra hinna. Tilvist skattaskjóla sé ekki óhjákvæmileg og gerðist ekki af sjálfu sér. Hún er meðvituð ákvörðun stærri ríkisstjórna og fjármálafyrirtækja, ásamt endurskoðenda- og lögfræðistofum. Hagfræðingarnir hvetja ráðstefnugestina til að taka stór skref í átt að því að útrýma skattaskjólum. Birgitta Jónsdóttir Pírati spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hver stefna hans væri gagnvart skattaskjólum og hvort til greina kæmi að Ísland setti fordæmi varðandi það að banna slíka gjörninga. Bjarni svaraði því til að baráttan gegn skattaskjólum snerist um tiltekna afmarkaða þætti eins og peningaþvætti, afnám leyndar og skattsvik. Hann telur að lítill árangur myndi nást ef Íslendingar ætluðu einir að stíga það skref án samstarfs við önnur ríki. Það er rétt hjá ráðherra að alþjóðasamfélagið verður að leggjast á eitt við að útrýma slíkum svæðum og möguleikum áframhaldandi uppgangs auðstjórnunar í heiminum. En það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki verið hluti af þeim hópi sem leiðir þá vegferð. Þeir sem skipta við glæpamenn samþykkja starfsemi þeirra. Erum við samþykk því? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson Skoðun
Undanfarnar vikur hafa upplýsingar úr Panama-skjölunum svokölluðu mallað út og haft gríðarleg áhrif á samfélag okkar. Sitjandi forsætisráðherra hefur þurft að segja af sér, boðað hefur verið til þingkosninga í haust og sitjandi forseti tók tímabundna ákvörðun um að hætta við að hætta við að sækjast eftir endurkjöri. Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna opnuðu á mánudag fyrir gagnagrunn með skjölunum þar sem hægt er að skoða félög skráð á aflandssvæðum og einstaklingana sem þar búa að baki. Þar var að finna nöfn fleiri Íslendinga sem eiga eða hafa átt skráð félög í skattaskjólum víðs vegar um heiminn. Þessi opinberun vakti hins vegar ekki jafn mikla athygli, hvað svo sem veldur því. Nöfn ákveðinna einstaklinga koma ef til vill einfaldlega engum á óvart. Eins hafði hinn gríðarlegi fjöldi Íslendinga sem átti aflandsfélög verið gefinn upp og mátti því eiga von á þessum upplýsingum. Engu að síður hefur birting skjalanna hrundið af stað nauðsynlegri umræðu um skattaskjól og skaðsemi þeirra. Skjölin varpa ljósi á skattaundanskot aðila sem nóg áttu fyrir, tilfærslu á fjármunum í hruninu sem „hurfu“ og augljóst tap íslenska ríkisins og þannig allra þjóðfélagsþegna á þessum æfingum. En það má ekki gleyma allra verstu hlið þess að hægt er að eiga fé og rekstur í skattaskjólum. Með því að notast við slík félög, leyna eignarhaldi með því að fela raunverulega eigendur, er heimsins verstu starfsemi gert kleift að þrífast; hryðjuverkum, mansali, vopnasölu og svo framvegis. Í vikunni rituðu 300 hagfræðingar víða að opið bréf í tilefni af ríkjaráðstefnu um spillingu sem haldin verður í næstu viku. Leiðtogar 40 ríkja sækja ráðstefnuna. Þeir segja skattaskjólin þjóna hinum ríkari og alþjóðafyrirtækjum og að hagnaður þeirra sé á kostnað allra hinna. Tilvist skattaskjóla sé ekki óhjákvæmileg og gerðist ekki af sjálfu sér. Hún er meðvituð ákvörðun stærri ríkisstjórna og fjármálafyrirtækja, ásamt endurskoðenda- og lögfræðistofum. Hagfræðingarnir hvetja ráðstefnugestina til að taka stór skref í átt að því að útrýma skattaskjólum. Birgitta Jónsdóttir Pírati spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hver stefna hans væri gagnvart skattaskjólum og hvort til greina kæmi að Ísland setti fordæmi varðandi það að banna slíka gjörninga. Bjarni svaraði því til að baráttan gegn skattaskjólum snerist um tiltekna afmarkaða þætti eins og peningaþvætti, afnám leyndar og skattsvik. Hann telur að lítill árangur myndi nást ef Íslendingar ætluðu einir að stíga það skref án samstarfs við önnur ríki. Það er rétt hjá ráðherra að alþjóðasamfélagið verður að leggjast á eitt við að útrýma slíkum svæðum og möguleikum áframhaldandi uppgangs auðstjórnunar í heiminum. En það er ekkert sem segir að Ísland geti ekki verið hluti af þeim hópi sem leiðir þá vegferð. Þeir sem skipta við glæpamenn samþykkja starfsemi þeirra. Erum við samþykk því?