Skoðun

Menningin í landslaginu

Helga Árnadóttir skrifar
Hugtakið menningarlandslag er áberandi í norrænni og evrópskri umræðu þegar rætt er um þau spor sem maðurinn skilur eftir sig í landinu og í hugum þeirra sem um landið fara. Það á við um landslag sem manneskjan hefur með einhverjum hætti, fyrr eða síðar, sett mark sitt á. Ósnortið náttúrulandslag er andstæðan við menningarlandslag, og á við um svæði þar sem náttúruleg vistkerfi eru ráðandi. Menningarlandslag á við þar sem vistkerfin hafa tekið breytingum og mannleg áhrif eru sýnileg.

Ólík sjónarhorn á landslag

Sjónarhornin á landslagið eru oft afar ólík. Bóndinn lítur á landsins gagn en ferðamaðurinn á upplifunina. Ferðamenn sjá víða ósnortið landslag þar sem bændur horfa á landið með augum þess sem nýtir og ræktar. Bændur geta margir þulið upp örnefni, sum eldforn, sem eru til vitnis um margskonar landnytjar og brúk gegnum tíðina. Þeir settu nöfn á landslagið og vottuðu þar með að það væri skipulagt og skilið. Klisjan um að gestsaugað sé glöggt á því ekki alltaf við, en hitt er mála sannast, að ferðafólki finnst margt merkilegt á Íslandi sem okkur finnst heldur hversdagslegt og jafnvel ómerkilegt. Þeir kenna okkur meðal annars að sjá hlutina í nýju ljósi og leggja rækt við sérkenni, eins og til að mynda bárujárnshúsin frá fyrri hluta síðustu aldar svo eitthvað sé nefnt.

Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt, segir í Fjallgöngu Tómasar Guðmundssonar, og nafngiftirnar bera vitni um það sem var. Landslagið í sjálfu sér getur verið tilkomumikið en það getur líka verið hlaðið táknrænni merkingu. Þingvellir eru ekki bara stórbrotið landsig á mörkum evrópska og ameríska flekans, heldur staður sem hefur um sig helgi í þjóðarvitund Íslendinga sem tákn um sjálfstæðisvitund þjóðarinnar. Í rómantík þjóðskáldanna hafa fjöllin orðið táknmyndir og hálendið hefur í hugum marga öðlast einhverskonar helgi.

Menningarsporin rakin

Í fræðum um menningarlandslag er meðal annars talað um nytjalandslag, framleiðslulandslag og bæjar- og borgalandslag, sem er næstum að öllu leyti manngert. Og upplifunar- og frístundalandslag er einnig til umræðu. Það getur verið greinandi og gagnlegt að ræða málin á þessum nótum og er áreiðanlega til eftirbreytni hér á landi.

Í þeirri miklu og hröðu framþróun sem átt hefur sér stað innan ferðaþjónustunnar skiptir miklu að við séum læs á menningarlandslagið. Með því að lesa í það er unnt að vísa veginn til framtíðar. Það er hægt að taka mörg dæmi um hvar vel hefur tekist með slíkan lestur. Ég nefni Húsavík sem skínandi dæmi þar sem höfnin hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er aftur orðin miðpunkturinn sem bæjarlífið hverfist um, jafnframt því sem trébátar eru gerðir upp til hvalaskoðunar og mæta nútímaferðamanninum á hverjum degi. Þar hefur menningarlæsið skapað mikinn virðisauka í ferðaþjónustu til hagsbóta og ánægju fyrir Húsvíkinga jafnt sem ferðafólk.

Ræðum og rýnum

Samtök ferðaþjónustunnar og samtök og fyrirtæki í landbúnaði vekja um þessar mundir athygli á samspili landbúnaðar og ferðaþjónustu, þar sem sveitamenningin og ferðaþjónustubóndinn skipta ferðamennskuna verulegu máli og öfugt. Á morgunverðarfundi á Grand Hótel næstkomandi föstudag fjalla fræðimenn um þýðingu menningarlandslags í Noregi, rannsóknir á sauðfjárrækt á Íslandi sem þátt í menningarlandslagi og um hlutverk ferðaþjónustubóndans. Með þessu viljum við sem að fundinum standa ýta undir rannsóknir og umræðu á þessu áhugaverða sviði hérlendis.








Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×