Skoðun

11% eða ekki 11%?

Vésteinn Valgarðsson skrifar
Kári Stefánsson krefst þess, og tæpir 90.000 Íslendingar með honum, að 11% vergrar landsframleiðslu verði varið í heilbrigðiskerfið. Nú skal ég síðastur manna mótmæla stórauknum framlögum til heilbrigðiskerfisins. En þessi tala er ekki heilög án fyrirvara.

Í Bandaríkjunum getur efnaðra fólk keypt sér bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Fátækt fólk fær ömurlega heilbrigðisþjónustu. Er það vegna þess að of litlum peningum sé varið í kerfið? Árið 2014 eyddu Bandaríkjamenn um 17% vergrar landframleiðslu í heilbrigðiskerfið. Mun meira en Íslendingar. Með mun verri árangri.

Munurinn liggur í rekstrinum. Í Bandaríkjunum er heilbrigðisþjónustan að mjög miklu leyti einkarekin og í gróðaskyni. Einkarekstur er eins og sníkill á kerfinu. Að auka framlögin er eins og að éta meira og meira, þótt maður sé með bandorm. Það er eins og að hella meira og meira í kerald sem aldrei fyllist, því botninn er suður í Borgarfirði.

Já, auðvitað þarf að stórauka framlög til heilbrigðismála. En það þarf líka að tryggja að þeir peningar fari í að bæta heilsu fólks en ekki í að skapa gróða fyrir einkarekin heilbrigðisfyrirtæki.

Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar 2008. Tilgangur þeirra er að auðvelda markaðsvæðingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Það gera þær með því að borga þeim sem framkvæmir aðgerðina. Það þýðir að aðgerðir einkarekinna læknastofa eru borgaðar úr sama vasanum og borgar aðgerðir á t.d. Landspítalanum. Þótt þær séu dýrari. Og þótt þær séu unnar af sömu læknunum. Þetta fyrirkomulag grefur m.ö.o. undan Landspítalanum. Tekur frá honum bæði peninga og vinnutíma sérfræðilækna, sem láta nægja að vera í hlutastarfi á spítalanum en vinna á arðbærari, einkarekinni stofu þess á milli.

Það þarf að stoppa í þetta gat um leið og framlögin eru aukin. Það þarf að leggja Sjúkratrygginar Íslands niður. Aukum framlög til heilbrigðiskerfisins og aukum gagnið sem þau framlög gera.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×