Ólíkur skilningur á eðli fjölmiðla Þorbjörn Þórðarson skrifar 26. janúar 2017 07:00 Við upphaf síðasta blaðamannafundar síns í embætti í síðustu viku beindi Barack Obama orðum sínum sérstaklega að fjölmiðlum. „Þið eigið að vera efahyggjufólk, þið eigið að spyrja mig erfiðra spurninga. Þið eigið ekki að hrósa heldur eigið þið að varpa gagnrýnu ljósi á þá sem hafa mikil völd og tryggja að við séum ábyrg gagnvart þeim sem komu okkur í embætti. Og það hafið þið gert,“ sagði Obama. Þessi skilningur hans á fjölmiðlum endurspeglar skilning mannréttindadómstóla á stöðu fjölmiðla. Þannig hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis komist að þeirri niðurstöðu í dómum að fjölmiðlar séu „varðhundur almennings“ og það sé aðeins hægt að skerða tjáningarfrelsi fjölmiðla ef skerðingin hafi verið nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Päivi Hirvelä, fyrrverandi dómari við MDE og fyrrverandi ríkissaksóknari Finnlands, sagði í grein sem birtist 2012 að blaða- og fréttamenn „væru ekki eins og venjulegt fólk. Líkt og opinberir embættismenn þjónuðu þeir samfélaginu í heild og væru verndarar lýðræðis.“ Bæði núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra Íslands hafa lýst skoðunum sem endurspegla takmarkaðan skilning á stöðu og eðli fjölmiðla. Skoðanir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á fjölmiðlum eru vel þekktar. Í mörg ár hefur hann verið sannfærður um að ákveðnir fréttamenn, aðallega starfsmenn RÚV, séu á móti sér persónulega og lýst því viðhorfi í greinum og viðtölum. Í færslu á Facebook á síðasta ári, meðan Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra, lýsti hann fjölmiðlum og þá aðallega þessu blaði sem „tómri skel“ af því að í ritstjórnargreinum birtust ólíkar skoðanir. Bjarni lýsti þessu viðhorfi eftir að hann hafði verið gagnrýndur í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins. Hann endurtók þetta svo í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi 18. ágúst 2016. „(Þ)egar maður horfir yfir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í dag finnst manni víða skorta skýra ritstjórnarstefnu þegar birtist þar ein skoðun í dag og önnur á morgun. Ýmsu dengt fram og þá sitja viðkomandi fjölmiðlar eftir sem tóm skel,“ sagði ráðherrann. Í andsvari bætti hann í og sagði: „Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er, gjörið svo vel.“ New York Times hefur í tvígang notað orðið „lygi“ með áberandi hætti á forsíðu um ummæli Donalds Trump. Í þessu felst skýr yfirlýsing um að blaðið ætli ekki að láta forsetann og hans fólk hræða sig til hlýðni. Gagnrýni Trumps á fjölmiðla verður ekki lögð að jöfnu við athugasemdir Sigmundar og Bjarna. Það er samt óvenjulegt að þjóðarleiðtogar séu svo hörundsárir að þeir þoli ekki gagnrýna umfjöllun. Það er mikilvægt að fjölmiðlar virði viðkvæmni stjórnmálamanna að vettugi og haldi áfram að fjalla með gagnrýnum hætti um störf þeirra. Aðeins þá geta þeir þjónað lesendum sínum.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Forsetakosningar í Bandaríkjunum Þorbjörn Þórðarson Mest lesið 40 ára ráðgáta leyst Arnór Bjarki Svarfdal Skoðun Kvenréttindi varða okkur öll - óháð kyni Rósa S. Sigurðardóttir Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun
Við upphaf síðasta blaðamannafundar síns í embætti í síðustu viku beindi Barack Obama orðum sínum sérstaklega að fjölmiðlum. „Þið eigið að vera efahyggjufólk, þið eigið að spyrja mig erfiðra spurninga. Þið eigið ekki að hrósa heldur eigið þið að varpa gagnrýnu ljósi á þá sem hafa mikil völd og tryggja að við séum ábyrg gagnvart þeim sem komu okkur í embætti. Og það hafið þið gert,“ sagði Obama. Þessi skilningur hans á fjölmiðlum endurspeglar skilning mannréttindadómstóla á stöðu fjölmiðla. Þannig hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis komist að þeirri niðurstöðu í dómum að fjölmiðlar séu „varðhundur almennings“ og það sé aðeins hægt að skerða tjáningarfrelsi fjölmiðla ef skerðingin hafi verið nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Päivi Hirvelä, fyrrverandi dómari við MDE og fyrrverandi ríkissaksóknari Finnlands, sagði í grein sem birtist 2012 að blaða- og fréttamenn „væru ekki eins og venjulegt fólk. Líkt og opinberir embættismenn þjónuðu þeir samfélaginu í heild og væru verndarar lýðræðis.“ Bæði núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra Íslands hafa lýst skoðunum sem endurspegla takmarkaðan skilning á stöðu og eðli fjölmiðla. Skoðanir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á fjölmiðlum eru vel þekktar. Í mörg ár hefur hann verið sannfærður um að ákveðnir fréttamenn, aðallega starfsmenn RÚV, séu á móti sér persónulega og lýst því viðhorfi í greinum og viðtölum. Í færslu á Facebook á síðasta ári, meðan Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra, lýsti hann fjölmiðlum og þá aðallega þessu blaði sem „tómri skel“ af því að í ritstjórnargreinum birtust ólíkar skoðanir. Bjarni lýsti þessu viðhorfi eftir að hann hafði verið gagnrýndur í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins. Hann endurtók þetta svo í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi 18. ágúst 2016. „(Þ)egar maður horfir yfir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í dag finnst manni víða skorta skýra ritstjórnarstefnu þegar birtist þar ein skoðun í dag og önnur á morgun. Ýmsu dengt fram og þá sitja viðkomandi fjölmiðlar eftir sem tóm skel,“ sagði ráðherrann. Í andsvari bætti hann í og sagði: „Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er, gjörið svo vel.“ New York Times hefur í tvígang notað orðið „lygi“ með áberandi hætti á forsíðu um ummæli Donalds Trump. Í þessu felst skýr yfirlýsing um að blaðið ætli ekki að láta forsetann og hans fólk hræða sig til hlýðni. Gagnrýni Trumps á fjölmiðla verður ekki lögð að jöfnu við athugasemdir Sigmundar og Bjarna. Það er samt óvenjulegt að þjóðarleiðtogar séu svo hörundsárir að þeir þoli ekki gagnrýna umfjöllun. Það er mikilvægt að fjölmiðlar virði viðkvæmni stjórnmálamanna að vettugi og haldi áfram að fjalla með gagnrýnum hætti um störf þeirra. Aðeins þá geta þeir þjónað lesendum sínum.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.