Skoðun

Röng skilaboð

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Við höfum átt orðastað, ég og forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um skil hans á skýrslum um aflandsfélög og skuldaleiðréttinguna. Í máli hans kemur fram að hann telur réttlætanlegt að hafa haldið þeim frá almenningi og Alþingi fram yfir ríkisstjórnarmyndun en viðurkennir þó mistök vegna skila þeirra fyrri.

Hvað skýrsluskil varðar þá er kýrskýrt að ráðherra er almennt ekki dómari um hvenær skýrsla skal lögð fram, plagg sem beðið er um af þinginu og unnin af sérfræðingum, eins þótt verkbeiðandinn sé ráðherra. Skýrsla á samkvæmt eðlilegum lýðræðisvinnubrögðum alla jafna að birtast þingi og þjóð þegar hún er tilbúin að mati sérfræðinganna en ekki þegar ráðherra telur hana birtingarhæfa. Innihaldið er ekki ákvarðandi í fyrsta sæti, ekki lengdin, ekki hversu sammála eða ósammála ráðherra er innihaldinu. Þetta er verkferli sem við eigum ekki að þurfa að deila um. Ég lít svo á að ráðherra hafi orðið á alvarleg mistök enda um meðvitaða ákvörðun að ræða, ekki gleymsku. Skilaboð til almennings og Alþingis í ljósi lýðræðis eru röng.

Ráðherra hefur sagt í andsvörum að þingheimur þyrfti að vera sammála um eðli og inntak siðareglna. Að sjálfsögðu. Ég var einmitt að reyna að fá hans afstöðu fram vegna algengs misskilnings margra um eðli og inntak siðareglna. Engu máli skiptir við mat á siðareglubrotum hvort viðkomandi hafi orðið á óvarkárni, gleymska eða hann haft uppi ásetning. Flest má kalla mistök. Það hugtak frelsar engan undan því að hafa framið ósiðrænan verknað. Brot viðkomandi er brot vegna þess að það er yfirleitt ekki hægt að sanna hvað lá að baki rangri ákvörðun sem reglur segja vera brot. Afsökun breytir engu nema ef til vill viðurlögum. Þetta er kjarni míns máls og varðar miklu ef siðareglur eiga að vera til gagns. Við getum deilt um hvað á við um skýrsluskilin, brot eða ekki brot, en morgunljóst að mat á siðareglubrotum er fyrst og fremst mat á gjörningnum sjálfum ekki á misgáningi, gleymsku, ásetningi eða persónulegu mati viðkomandi á eigin gerðum.



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×