Skoðun

Hommar í sjónvarpinu

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Isak Valtersen er 17 ára norskur menntaskólanemi. Hann er aðalpersóna þriðju þáttaraðar norsku unglingaþáttanna Skam og hann er að mínu mati ein mikilvægasta sjónvarpspersóna síðustu ára. Isak upplifir í fyrsta sinn að verða skotinn í einhverjum af sama kyni. Hann berst við eigin fordóma, sættist við sjálfan sig og kemur út fyrir vinum sínum. Hann byrjar með strák, kyssir strák, stundar kynlíf með strák í fyrsta skipti.

Af hverju kalla ég Isak eina mikilvægustu sjónvarpspersónu síðustu ára? Vegna þess að við höfum aldrei kynnst neinum eins og Isak áður. Íslensk ungmenni hafa aldrei fengið að kynnast eins jákvæðri, heiðarlegri og opinskárri frásögn af samkynhneigð í sjónvarpi og nú. Við sjáum endalausar ástarsögur af gagnkynhneigðum pörum, en aldrei höfum við séð ástarsögu tveggja ungra einstaklinga af sama kyni sagða á eins heiðarlegan og umbúðalausan hátt og gert er í Skam.

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á að hinsegin ungmennum líði verr en öðrum í skólanum. Ein ástæðan er skortur á sýnileika. Þess vegna barðist ég fyrir innleiðingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar. En meira þarf til. Efla þarf sýnileika hinsegin fólks í dægurmenningu. Hinsegin fyrirmyndir geta verið mikilvægar fyrir ráðvillt ungmenni sem eru að uppgötva og sættast við sjálf sig. Að þau geti speglað sig í einhverjum sem er að upplifa það sama og þau getur skipt sköpum. Isak Valtersen er fyrir fjölda unglingsstráka í dag þessi nauðsynlega fyrirmynd – fyrirmynd sem ég hefði sárlega þurft á að halda á mínum unglingsárum.

Isak er mikilvægur vegna þess að það er ekki verið að fela það að hann stundi kynlíf með kærasta sínum. Það er þessi sýnileiki sem skiptir öllu máli. Það er von mín að Skam ryðji brautina og að hinsegin ungmenni verði hér eftir mun sýnilegri í sjónvarpi og kvikmyndum. Íslenskir framleiðendur mega svo sannarlega ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×