Skoðun

Samræmd lífeyrisréttindi kalla á kjarabætur

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Þáttaskil verða í kjara- og réttindamálum opinberra starfsmanna um næstu mánaðamót þegar nýskipan A-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs tekur gildi. Þeim sem hefja störf hjá hinu opinbera eftir 1. júní nk. verða búin sömu lífeyrisréttindi og gilda á almennum vinnumarkaði, þ.e. með aldurstengdri ávinnslu réttinda sem miðast við að lífeyristaka hefjist við 67 ára aldur. Núverandi sjóðfélagar munu eftir sem áður geta hætt störfum 65 ára og er tryggð jöfn ávinnsla réttinda með svokölluðum lífeyrisauka.

Hið nýja lífeyriskerfi mun hafa mest áhrif á kjör og stöðu nýrra opinberra starfsmanna og kallar á kjarabætur þeim til handa. Háskólamenntaðir koma seinna en aðrir út á vinnumarkaðinn og missa því af mikilvægum „ávinnsluárum“ í nýju lífeyriskerfi. Vinna starfshóps um jöfnun launa á milli almenna og opinbera markaðarins er nýhafin og ljóst er að kjörin þurfa að breytast hratt og örugglega til hins betra ef ríki og sveitarfélög ætla ekki að verða undir í samkeppni um hæft háskólamenntað starfsfólk. Fyrstu skrefin þarf að taka í næstu kjarasamningum aðildarfélaga BHM við ríkið.

Fleira veldur því að kjör og vinnuaðstæður háskólafólks eru í deiglunni. Æ fleiri eru sjálfstætt starfandi og/eða gegna hlutastörfum. Oft er um tímabundnar og ótryggar ráðningar að ræða. Sú tíð þegar stéttir háskólamenntaðra embættismanna gátu gengið að öruggum störfum hjá hinu opinbera vísum að loknu námi er löngu liðin. Samkeppni um góð störf er hörð en samræmt lífeyriskerfi á að auka hreyfanleika fólks á milli vinnumarkaða.

Framfarir á sviði upplýsingatækni, t.d. á sviði gervigreindar, munu valda miklum breytingum á starfsumhverfi háskólamenntaðra á næstu áratugum. Til að tryggja samkeppnishæfi þjóðarinnar þarf að bæta aðgengi að fjölbreyttri menntun á framhalds- og háskólastigi í hæsta gæðaflokki. BHM skorar á ríkisstjórnina að láta af fjársvelti háskólastigsins og kallar eftir samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulífið um greiningu á framtíðarþörfum á vinnumarkaði og áhrifum tækniframfara á vinnumarkaðinn og störf háskólafólks.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×