Matur

Pavlova og súkkulaðitrufflur frá félögunum í Brikk

Starri Freyr Jónsson skrifar
Tveir af eigendum Brikk – brauð og eldhús. Davíð Magnússon (t.v.) er bakari og Oddur Smári Rafnsson er kokkur. Á myndina vantar Einar Benediktsson. MYNDIR/VILHELM
Tveir af eigendum Brikk – brauð og eldhús. Davíð Magnússon (t.v.) er bakari og Oddur Smári Rafnsson er kokkur. Á myndina vantar Einar Benediktsson. MYNDIR/VILHELM

Strákarnir á bak við veitingastaðinn Brikk – brauð og eldhús í Hafnarfirði eru miklir matmenn sem láta sér ekki næga að framreiða ljúffengan mat á veitingastaðnum sínum sem þeir opnuðu saman snemma í sumar. Félagarnir heita Davíð Magnússon, sem er bakari, Oddur Smári Rafnsson, sem er kokkur og Einar Benediktsson sem er titlaður fjármálagúrú í samstarfi þeirra.

„Ég er algjör „sökker“ fyrir svínakjöti,“ segir Oddur. „Heima fyrir leik ég mér mikið með alls konar útfærslur af t.d. svína­snitseli en sá réttur er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Davíð og Einar segjast fara klassískari leiðir í eldhúsinu heima fyrir. „Við erum meira fyrir gott nautakjöt og bearnaise-sósu, sem er eldað saman á fullkominn hátt.“ Þeir eru þó sammála um að þegar þeir vilji gera sérstaklega vel við sig heima verði grillaður humar oft fyrir valinu. „Það er alltaf klassískur réttur og ekki er verra að hafa einn kaldan með.“

Úrvals hráefni

Þeir segjast einungis vinna með úrvals hráefni á Brikk og stytti sér aldrei leið í eldamennskunni. „Við notum til dæmis aðeins íslenskt smjör í smjördeigið okkar og lögum allar sultur, krem og ganache á staðnum. Engir innfluttir kleinuhringir eru í boði hér á bæ.“

Veitingastaðurinn Brikk var opnaður um miðjan júní og hafa viðtökur verið framar vonum þeirra. „Við bjóðum m.a. upp á margar tegundir af snúðum, bæði úr smjör- og gerdeigi, súrdeigsbrauð og einnig súrdeigsbrauðsneiðar með salati. Svo bjóðum við einnig upp á samlokur og súpu alla daga sem eru lagaðar eftir pöntunum en matseðillinn hjá okkur breytist reglulega.“



Nýjungar fram undan

Félagarnir eru alltaf að prófa sig áfram með ýmsar nýjungar. „Núna erum við að vinna í ýmsum nýjum vörum fyrir veturinn, eins og paté, jólasnúðum og fullt af smákökum, smørrebrød og heitt súkkulaði í kuldanum. Einnig stefnum við á að bjóða upp á súrdeigspitsudeig sem fólk getur kippt með sér heim.“

Pavlovurnar eru toppaðar með þeyttum rjóma, súkkulaði og berjum. Súkkulaðitrufflurnar eru þaktar kakódufti.Vísir/Eyþór

Hér gefa þeir lesendum Fréttablaðsins tvær einfaldar og ljúffengar uppskriftir. „Við völdum þessar uppskriftir af því að þær eru auðveldar, gómsætar og algjörlega nauðsynlegar á veisluborðið ætli maður að fara alla leið.“

Pavlova

280 g eggjahvítur

500 g sykur

1 ½ tsk. edik

½ tsk. sítrónusafi

½ tsk. salt



Eggjahvíturnar eru þeyttar og sykrinum bætt út í í nokkrum skömmtum. Þeyttar þar til hvíturnar hafa myndað mjúka áferð og leka ekki af þeytaranum. Ediki, sítrónusafa og salti er blandað varlega í með sleikju. Sett í sprautupoka og sprautað í þá stærð sem hver og einn vill. Bakað við 100 gráður í 45 mín. eða þar til pavlovan er stökk að utan en mjúk að innan ( fer eftir ofnum). Toppað með til dæmis þeyttum rjóma, berjum og súkkulaði.



Súkkulaðitrufflur

560 g dökkt súkkulaði

500 g rjómi

100 g mjúkt smjör

90 g hunang



Hitið rjóma og hunang að suðu. Hellið honum næst yfir súkkulaðið og blandað saman. Smjörinu er bætt út í í nokkrum skömmtum. Kælið yfir nótt og sprautið daginn eftir í litlar kúlur og kælið. Hjúpað með dökku súkkulaði og setjið kakóduft á kúlurnar áður en súkkulaðið storknar. Geymist í kæli.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.