Skoðun

Framfarir í stað niðurskurðar og aðhalds

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Fráfarandi ríkisstjórn var gagnrýnd með gildum og viðamiklum rökum. Það á til dæmis við sveltistefnu stjórnarflokkanna þriggja sem afhjúpast í fjárlagafrumvarpi þeirra.

Á tveimur málasviðum, vísindum og nýsköpun annars vegar og aðgerðum í loftslagsmálum hins vegar, blasir við aðhald eða niðurskurður. Vissulega ekki alls staðar en allt of víða. Í greiningu minni á frumvarpinu og þingræðu kom þetta fram, þvert ofan í orð ráðherra málasviðanna um sókn:

Framlög til samkeppnissjóða í vísindarannsóknum, tækni- og þekkingargreinum eiga að lækka. Framlög til rannsókna í landbúnaði og tengdum greinum sömuleiðis. Framlög til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands lækka ásamt styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja. Rannsóknastarfsemi allra háskóla er skorin niður, að vísu aðeins um 0,6% en þar er þörf á allt öðru. Framlög til Byggðaþróunarsjóðs og Sóknaráætlunar byggða lækka í heild, en með þeirra tilstyrk fer m.a. fram nýsköpun og andóf gegn veðurfarshlýnuninni. Fjárheimildir til uppbyggingar allra innviða í umhverfisgeiranum eru auknar um aðeins 5% (200 millj­ónir kr.).

Sérframlög til gestastofa tveggja þjóðgarða, Vatnajökuls og Snæfellsjökuls, eiga að falla tímabundið niður og mynda óbundna fjárlagaheimild. Hluti framlags til Hekluskóga er felldur niður og framlag til Skógræktar ríkisins lækkað. Fjárheimildir til rannsókna og vöktunar náttúru standa nánast í stað. Styrkir til uppbyggingar á innviðum rafbíla eru óbreyttir og of lágir. Framlög til orkuskipta með öðrum orkugjöfum í samgöngum eða útgerð finnast ekki. Framlög til staðbundinna náttúrustofa lækka, en þar fer fram mikilvæg gagnasöfnun vegna loftslagsbreytinga og stofurnar eru afar mikilvægar stoðir byggðafestu.

Málefnaleg gagnrýni er undirstaða stjórnmála­umræðunnar. Hana verður að stunda ærlega og af kappi. Það voru einkenni bæði kosningastarfs VG 2016 og starfa þingflokksins á síðasta þingi. Nú blasir við að gera verður mun betur á ofangreindum málasviðum. Vísindi, rannsóknir og nýsköpun, ásamt loftslagsmálum, eiga að vera framarlega í áhersluröðinni.

Hverjum treystir þú?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×