Skoðun

Að kjósa þenslu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hversu stór hluti kjósenda verðlaunar ábyrga hagstjórn og hversu margir kjósendur fara í vegið hagsmunamat á valkostum í aðdraganda kosninga?

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýstu andstöðu við fjárlagafrumvarpið þegar það kom fram fyrr í haust. Þorsteinn Pálsson, einn af helstu áhrifamönnum Viðreisnar, túlkaði andstöðuna þannig í sjónvarpsviðtali á Hringbraut á dögunum að fjárlagafrumvarpið hefði líklega ekki notið meirihlutastuðnings. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi þannig verið búnir að ákveða að fella fjárlagafrumvarpið og þar með ríkisstjórnarsamstarfið fyrir jól.

Þessi greining á stöðu mála er langsótt. Í fyrsta lagi lá ekkert fyrir um andstöðu við fjárlagafrumvarpið nema í viðtölum einstakra þingmanna við fjölmiðla. Í öðru lagi verður að teljast líklegt að frumvarpinu hefði verið breytt í meðförum þingsins ef það stefndi í að það nyti ekki stuðnings meirihlutans. Hins vegar hafa þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lýstu andstöðu við fjárlagafrumvarpið og þeir sem hafa kallað eftir skattalækkunum í núverandi efnahagsárferði í raun lýst því yfir að þeir ætli ekki að standa vörð um þann fjármálastöðugleika sem er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að hafa íslenska krónu sem gjaldmiðil í hagkerfi sem er laust úr viðjum fjármagnshafta.

Í raun var fjárlagafrumvarpið besta þingmálið sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram á stuttum starfstíma sínum.

Frumvarpið hljóðar upp á 44 milljarða króna afgang og var í samræmi við athugasemdir og tilmæli Seðlabanka Íslands og alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Hagvöxtur hér á landi var 7,2 prósent í fyrra sem er meiri hagvöxtur en í nokkru öðru OECD-ríki. Hagvöxturinn var 4,3 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það hefði verið glórulaus hagstjórn og fullkomlega ábyrgðarlaust að lækka skatta við þessar aðstæður enda hefði slík aðgerð ýtt enn frekar undir þenslu í hagkerfinu.

Margir flokkanna sem bjóða fram hafa boðað stóraukin ríkisútgjöld. Aukin útgjöld ríkisins ýta undir þenslu og verðbólgu. Nýleg löggjöf um opinber fjármál mun girða fyrir að flokkarnir sem verða í næstu ríkisstjórn geti hagað ríkisfjármálastefnunni eftir hentisemi og virt að vettugi leiðarvísa ábyrgrar hagstjórnar. Engu að síður er ástæða til að hafa áhyggjur. Málamiðlanir til að tryggja starfhæfa ríkisstjórn í fjölflokkakerfinu gætu reynst kostnaðarsamar fyrir skattgreiðendur og sett efnahagslegan stöðugleika í uppnám.

Fylgisþróun flokkanna í skoðanakönnunum veitir vísbendingar um að ríkisfjármálastefnan sé ekki ofarlega í hugum kjósenda. Óháð stuðningi við einstaka flokka er mikilvægt að kjósendur geri sér grein fyrir að atkvæði með auknum ríkisútgjöldum mun til lengri tíma ýta undir óstöðugleika í hagkerfinu hér á landi og veikja þá vinnu sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum til að styrkja umgjörð peningastefnunnar. Án ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum verður aldrei hægt að treysta stoðir velferðarkerfisins til langframa.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×