Skoðun

Mikil hætta á mjúkum pökkum í ár

Kristín Hrefna Halldórsdóttir skrifar
Það verður að teljast afar ólíklegt að Íslendingar fari í jólaköttinn í ár ef marka má söluna sem hefur verið á fatnaði og fylgihlutum síðustu misserin hér á landi. Miðnæturopnanir stóru verslunarmiðstöðvanna tveggja skiluðu mikilli sölu til íslenskra kaupmanna en H&M fékk einnig væna sneið af jólakökunni.

Landslagið á fatamarkaðnum hefur breyst mikið síðasta árið með umfangsmiklum breytingum í verslunarmiðstöðvunum tveimur. Þar ber helst að nefna opnun H&M í báðum verslunarmiðstöðvum. Zara lokaði einnig annarri verslun sinni, Lindex hefur opnað fleiri nýjar verslanir og breytt og bætt verslunina í Smáralind. Next hefur að opnað aftur eftir að hafa fært verslun sína og Selected og Jack & Jones eru að opna aftur eftir miklar breytingar í Kringlunni.

Í aðdraganda jóla er orðin hefð fyrir því að verslunarmiðstöðvarnar haldi miðnæturopnanir þar sem góð tilboð eru á flestum vörum. Miðvikudaginn 1. nóvember var Miðnæturopnun í Smáralind og Miðnætursprengja Kringlunnar fimmtudaginn 9. nóvember. Samkvæmt úrtaki Meniga áttu fleiri viðskipti sér stað í fatabúðunum í Miðnætursprengju Kringlunnar heldur en Miðnæturopnun Smáralindar. Hlutdeildin í sölu var ólík milli þessara daga og sást þar vel að Zara er aðeins með verslun í annarri verslunarmiðstöðinni en þeir voru með hæsta hlutdeild í sölu fataverslana 1. nóvember en frekar smáir 9. nóvember. Lindex var með hæstu hlutdeild í sölu 9. nóvember enda með þrjár verslanir í Kringlunni. H&M fékk væna sneið af sölunni báða þessa daga en var þó minni en Zara 1. nóvember og Lindex 9. nóvember.

Ef marka má reynslu síðustu ára er mjög hátt hlutfall af þeirri fatasölu sem á sér stað fyrir jólin búin áður en desember hefst. Árið 2015 sáum við í gögnum Meniga að í Kringlunni voru 54% af fatasölunni búin áður en desember hófst og í Smáralind voru 55% af fatasölunni búin áður en desem­ber hófst. Það verður því áhugavert að fylgjast með því hvernig salan í desember gengur og hvort hún fari að mestmegnis til H&M. Munu íslenskir kaupmenn fá bita af jólakökunni eða þurfa þeir að láta sér nægja mylsnuna sem fellur af borði sænska fatarisans?

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×