Skoðun

Hver tók á móti þér?

Ebba Margrét Magnúsdóttir skrifar

Svarið við þessari spurningu er líklega hjá flestum einhver góð ljósmóðir eða fæðingarlæknir.



Nú eru ljósmæður í kjarabaráttu við ríkið og hafa nokkrir tugir þeirra sagt starfi sínu á Landspítalanum lausu. Það er grafalvarleg staða en er skiljanleg þegar málið er skoðað til hlítar.



Ljósmæður eru eingöngu kvennastétt með 6 ára háskólanám að baki. Þær hafa lokið 4 ára háskólanámi í hjúkrunarfræði og síðan bætt við sig tveimur árum í ljósmóðurfræði. Hafi þær unnið í einhver ár sem hjúkrunarfræðingar og unnið sig upp í launum þá er það svo að eftir tveggja ára ljósmóðurnám þá lækka launin þegar þær byrja að vinna sem ljósmæður. Það sjá það allir að þetta getur ekki gengið. Við erum að leggja áherslu á gildi menntunar í landinu og hún kostar mikið fé og tíma. En ef hún færir fólki engar kjarabætur þá er enginn hvati til að mennta sig frekar.



Við sem vinnum við fæðingarþjónustu vitum að þetta starf er einstakt. Það að taka á móti nýjum Íslendingum í þennan heim er forréttindastarf en mjög krefjandi. Börnin fæðast á öllum tímum sólarhringsins og líka á rauðum dögum. Starf ljósmæðra er vissulega krefjandi og getur reynt á bæði líkamlega og andlega. Rannsóknir sýna að þeir sem vinna vaktavinnu lifa skemur en þeir sem vinna dagvinnu og tíðni alvarlegra veikinda er einnig hærri hjá vaktavinnufólki.



Starfið í mæðraverndinni, í fæðingarþjónustu og síðan að fylgja eftir nýbakaðri fjölskyldu krefst teymisvinnu ljósmæðra og fæðingarlækna. Það er því miður svo að það fara ekki allir heim með heilbrigð lifandi börn og því fólki þarf líka að sinna á okkar vakt. Við á Íslandi höfum náð einstökum árangri í lágri tíðni burðarmálsdauða á heimsvísu og á sama tíma hefur keisaratíðnin ekki aukist eins og víða í hinum vestræna heimi. Þessu höfum við náð með mikilli faglegri þjálfun og samstarfi fagaðila sem að fæðingarþjónustu koma. Skjólstæðingar okkar eru móðirin, barnið og fjölskyldan í heild. Við þurfum að hlusta á ekki bara einn hjartslátt heldur alltaf tvo og stundum fleiri þegar um fjölburameðgöngur er að ræða. Ábyrgðin er mikil og oft þarf að taka ákvarðanir hratt og bregðast við með réttum hætti.

Semja þarf strax við ljósmæður

Það tekur mörg ár að þjálfa reynda ljósmóður og því má það ekki gerast að þær hætti nú störfum og leiti til annarra starfa eins og reyndin er með marga hjúkrunarfræðinga á LSH. Það vantar nú á annað hundrað hjúkrunarfræðinga á spítalann. Sorglegt er að vita til þess að hjúkrunarfræðingar með 2 ára aukanám eins og skurðhjúkrunarfræðingar og svæfingarhjúkrunarfræðingar skuli velja að starfa frekar í fluginu en á LSH. Hér verður að koma á umbótum í mannauðsmálum, gera starfið eftirsóknarvert og borga laun í samræmi við ábyrgð og reynslu. Þannig missum við ekki ljósmæður eða hjúkrunarfræðinga til annarra starfa. Menntun og þjálfun þessara stétta þarf að meta og greiða laun samkvæmt því.



Hvernig getur það gerst árið 2018 á vakt Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að kvennastétt með 6 ára háskólanám að baki sé að hverfa frá starfi? Þessi ríkisstjórn setti heilbrigðismál og innviði í öndvegi. Það er afgangur af ríkissjóði og verið að greiða niður erlendar skuldir. Ég skora á fjármálaráðherra að gefa samninganefnd ríkisins heimild til að semja við ljósmæður og það strax. Sumarið er fram undan og þá er álag á fæðingardeild LSH mikið vegna sumarfría starfsfólks og vegna þess að nágrannasjúkrahúsin draga oft úr sinni starfsemi. En fæðingum fækkar ekki þó að sólin fari að skína og ekki setjum við tappa í konurnar. Við förum í hanskana og tökum glöð á móti nýjum Íslendingum.



Höfundur er fæðingarlæknir og formaður læknaráðs Landspítalans




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×